Á undanförnum áratugum hefur smám saman orðið til nýr ofurréttur í hugum margra og því miður einnig í raun. Þetta er svonefndur„réttur almennings til upplýsinga“. Í meginatriðum snýst þessi réttur um að brjóta megi lög, rjúfa friðhelgi einkalífs og ekki síður láta almenna mannasiði lönd og leið dugi það til að afla upplýsinga um mál sem „eigi erindi við almenning“. Því þótt rétturinn sé kenndur við almenning er hann fyrst og fremst hagnýttur af ákveðnum fyrirtækjum sem selja almenningi fréttir og annað skemmtiefni.
Þannig hafa menn sem stolið hafa sendibréfum og öðrum gögnum úr fyrirtækjum og stofnunum og frá einstaklingum verið gerðir að miklum alþýðuhetjum. Í fjölmiðlum. En þannig vill til að í flestum tilfellum eru það fjölmiðlar og útgáfufélög sem kaupa slíkt þýfi. Og því skal sérstaklega haldið til haga að fjölmiðlarnir gerast ekki þjófsnautar með þessum hætti í mannúðarskyni heldur til að selja fleiri áskriftir og auglýsingapláss. Fjölmiðlar eru ekki merkilegri en önnur fyrirtæki að því leyti að þeir þurfa skilding í kassann.
Þessi nýi „réttur“ barst einnig til Íslands þar sem fjölmiðlar hafa í auknum mæli komist upp með að hagnýta sér slíkt þýfi. Frægasta dæmið hér á landi er vafalaust þegar tölvupóstum Jónínu Benediktsdóttur var stolið og þeir birtir í dagblöðum sem menn sem töldu sig standa í stappi við hana gáfu út. En þau eru fleiri dæmin. Jafnvel þótt saksóknari ríkisins veki athygli á því að um lögbrot sé að ræða láta menn sér það í léttu rúmi liggja.
Undanfarna daga hafa hins vegar engar aðrar fréttir borist frá Bretlandi en að þar sé loks að renna upp fyrir mönnum að þessi nýi réttur sé ef til vill ekki jafn glæsilegur og menn vildu trúa.
Fjölmiðlar hafi í leit sinni að upplýsingum sem „eiga erindi við almenning“ brotist inn í símakerfi einstaklinga og vaðið þar um á skítugum skónum. Þess munu jafnvel dæmi að þeir hafi eytt skilaboðum til fólks, þótt menn voni að það hafi verið í ógáti.
Það sem gerði þennan rétt svo óhugnanlegan var ekki aðeins að hann gekk gegn öllum helstu réttindum einstaklinga heldur að það var einvörðungu undir þeim komið sem nýttu sér hann að meta hvort beiting hans væri réttlætanleg. Og það var þeim heldur fyrirhafnarlítið. Varla birta fjölmiðlar fréttir um mál nema þau eigi erindi við almenning!