Í vikunni lést í Kaupmannahöfn Íslendingur einn sem á sínum tíma var miðdepill eins umtalaðasta sakamáls aldarinnar í landinu. Fór svo að hann var dæmdur til 17 ára fangavistar fyrir morð tveggja manna og er óhætt að fullyrða að um nokkurra ára skeið hafi enginn Íslendingur verið álitinn hættulegri fantur. Ýmsir munu hafa kviðið sárt þeim degi þegar hann slyppi út og gæti tekið til við fyrri iðju.
Síðan liðu ár og Sævar Marinó Ciesielski fékk reynslulausn eins og aðrir, en þá brá svo við að hann gekk ekki um og myrti, heldur hélt statt og stöðugt fram sakleysi sínu af því sem hann hafði áður verið dæmdur fyrir. Krafðist hann tvívegis endurupptöku máls síns, en hafði ekki erindi sem erfiði. Er því raunar ekki að neita að eitt og annað virðist málum blandið við sakfellingardómana yfir Sævari Marinó og öðrum sakborningum, og vekur þar sérstaka athygli að í öllu því játningaflóði sem frá sakborningum kom, láðist þeim jafnan að játa, svo gagn yrði í, hvar hinna horfnu manna væri að leita. Munu mjög margir nú vera þess fullvissir að Sævar Marinó og félagar hafi saklausir verið dæmdir og telja það reginhneyksli að málið hafi ekki verið endurupptekið að kröfu hans.
Ekki veit Vefþjóðviljinn hvað varð um þá Guðmund og Geirfinn og enn síður hvort einhverjir og þá hverjir bera ábyrgð á örlögum þeirra. Hitt veit hann að dapurleg saga Sævars Marínós mætti vera almenn áminning um að fara sér hægt í að kveða upp eigin dóma í málum þar sem menn hafa ekki öll gögn í höndum og byggja álit sitt á fréttaflutningi og allskyns áróðri. Almenningsálit í sakamálum getur verið stórhættulegt, í hvora áttina sem það gengur hverju sinni. Þegar Geirfinnsmál var til rannsóknar var lítill vafi í huga margra á sekt hinna ákærðu og mikill þrýstingur á yfirvöld að hinir seku fengju makleg málagjöld. Einnig eru til dæmi af sakamálum sem mikið rúm fengu í fjölmiðlum og fjöldi manna treysti sér til að ákveða að verið væri að ákæra saklausa menn, eða þá aðeins seka um ómerkileg smáatriði, og mikill þrýstingur var á að ákæruvaldið yrði stöðvað. Um daginn ályktaði til dæmis heill stjórnmálaflokkur, sem á aðild að ríkisstjórn, gegn ákæru gegn hópi manna sem sakaður var um að ráðast að alþingi.
Þeir, sem kynntu sér dómana í Geirfinnsmáli og ýmis gögn sem birt voru opinberlega eftir að því lauk, geta haft ágætar forsendur til að leggja mat á réttmæti sakfellingardómanna í málinu. Þeir sem hafa kynnt sér vel beiðni Sævars Marinós um endurupptöku málsins, hvernig hún var gerð og rökstudd, og svo röksemdir Hæstaréttar fyrir synjun hennar, hafa ágætar forsendur til að meta réttmæti þeirrar ákvörðunar réttarins. En þeir, sem hafa ekki kynnt sér neitt af þessu nema úr fjölmiðlaumræðu, ættu að fara sér hægar í fullyrðingum. Sakamál á ekki að reka í fjölmiðlum.
Og rétt eins og menn hefðu átt að varast það fár sem geisaði í fjölmiðlum áttunda áratugarins, þegar rannsókn Geirfinnsmáls stóð sem hæst, þá ættu menn almennt að gæta sín við slík tækifæri. Þeir, sem hneykslast réttilega á ofsanum sem þá réði víða ríkjum, og þeirri þungu kröfu sem almenningur var sagður gera um réttlæti og þunga dóma, þeir ættu kannski að velta fyrir sér hvernig umræðan er á Íslandi nútímans. Er hún alltaf svo mikið betri? Þeir, sem segja að saksóknarar hafi á áttunda áratugnum verið undir miklum þrýstingi að rannsaka, hlera, handtaka, yfirheyra og ákæra af fyllsta krafti, hvað finnst þeim um þjóðmálaumræðuna núna? Eru saksóknarar nútímans undir minni þrýstingi hinna talandi stétta nú en áður?
Það er eins gott fyrir réttarríkið að saksóknar hafi bein í fótunum til að standast slíkan þrýsting.