Föstudagur 8. júlí 2011

189. tbl. 15. árg.

K omið hefur fram opinberlega undanfarna daga að ekkert hafi orðið úr því að forsætisráðherra Kína kæmi í opinbera heimsókn til Íslands með fjölmennri viðskiptasendinefnd. Ekki hefði tekist að finna dagsetningu fyrir heimsóknina „sem báðum hefði hentað“, kínverska forsætisráðherranum og þeim íslenska. Í öðrum löndum eru engir eins eftirsóttir gestir, enda fylgja slíkum heimsóknum yfirleitt viðskiptasamningar sem jafnvel stórveldi telja vera vítamínssprautu í hagkerfi sitt. En á Íslandi tekst ekki að finna dag þar sem Jóhanna Sigurðardóttir hefur tíma fyrir stuttan fund með forsætisráðherra Kína.

Einnig hefur komið fram að búið var að panta hótelherbergi fyrir hundrað manna viðskiptasendinefnd frá Kína, en þau hafi verið afpöntuð þegar ekkert hafi orðið úr heimsókninni.

En þegar sagt er að þetta hafi komið fram opinberlega þá er rétt að taka fram að „fréttastofa Ríkisútvarpsins“ hefur enn ekki frétt af málinu sem þó hefur verið rætt nær alla vikuna annars staðar.

Menn gætu velt fyrir sér hvort „fréttastofan“ hefði verið jafn áhugalaus ef forsætisráðherrann, sem ekki gat tekið á móti forsætisráðherra fjölmennasta ríkis heims, hefði ekki verið úr Samfylkingunni, og ef ekki hefði verið vinstristjórn við völd. Ef að íslenskt viðskiptalíf hefði þá orðið af heimsókn hundrað manna viðskiptasendinefndar úr einu stærsta hagkerfi heims, ætli það gæti verið að Ríkisútvarpið hefði þá vaknað? Ætli þá hefði verið krafist skýringa og fjallað um allan ávinninginn sem viðskiptalífið hefði misst af?

Nú væri auðvitað hægt að hafa þá stefnu að Ísland neitaði öllum samskiptum við kommúnistastjórnir eins og þá í Kína. Við því væri út af fyrir sig ekkert að segja og þá myndi enginn gagnrýna Jóhönnu Sigurðardóttur fyrir að gefa einfaldlega slíkt svar þegar forsætisráðherra Kína óskaði eftir að fá að koma í heimsókn með stóra viðskiptasendinefnd. En sú skýring er bara ekki gefin, frekar en nokkur önnur. Jóhanna Sigurðardóttir gefur ekki skýringar. Og ekki finnst neinum á „fréttastofu Ríkisútvarpsins“ sem þörf sé á að leita neinna skýringa. Þar fréttir enginn af málinu frekar en svo mörgu öðru af sama tagi.