S jö ofstækismenn og Árni Johnsen hafa lagt til á Alþingi að nú verði stefnan sett á að bannað verði að selja tóbak annars staðar en í apótekum. Skýringin mun ekki vera sú, að tillöguflytjendur telji að hollusta og lækningamáttur tóbaksins séu svo mikil að best fari á því að þetta töframeðal sé selt í lyfjabúðum, heldur er þetta auðvitað hugsað sem stór áfangi á þeirri leið að banna fólki með öllu að njóta tóbaks. Þingmaður, sem flaug um gatið á Dyrhólaey, vill banna mönnum að taka í nefið, af því að það sé svo hættulegt.
Margt af því ógeðfelldasta í þjóðfélagsþróun Vesturlanda á síðustu árum endurspeglast í tóbaksvarnaofstækinu. Ákveðin tegund af fólki fyllist slíkri ofsavissu um réttmæti eigin sannfæringar, að fyrir því hættir annað fólk að vera frjálsir einstaklingar og verður að sálarlausri eign ríkisins, sem vitrara og betra fólk verður að hugsa fyrir.
Hin ofstækisfulla barátta gegn því að fólk fái að njóta tóbaks byggist á slíkri sannfæringu. Tóbak er óhollt, getur valdið hættulegum sjúkdómum, og þá má banna fólki að neyta þess.
Það vita allir að tóbak getur spillt heilsu manna. Engu að síður vill fjöldi fólks neyta þess. Það metur ánægju sína í dag nægilega mikils til þess að taka áhættu um heilsu sína á morgun. Það er stór hluti af því að vera sjálfráða einstaklingur að fá að taka slíkar ákvarðanir. Að fá að ráða mat sínum, klæðaburði, húsaskjóli, starfsvali, áfengisneyslu, tóbaksnautn, hjálmlausum hjólreiðum og hverju öðru sem ekki brýtur á betri rétti annarra. Um leið og menn samþykkja að ofstækismenn á þingi eða í sveitarstjórnum megi taka ákvörðunarvaldið á þessum sviðum af fullorðnu fólki, þá eru menn komnir inn á stórhættulega braut. Við hverja slíka ákvörðun smækkar einstaklingurinn en ríkiseignin í honum stækkar. Það er ein ástæðan fyrir því að menn verða að berjast af hörku gegn tilraunum stjórnlyndra ofstækismanna til „tóbaksvarna“, og vinda verulega ofan af þeim ofstjórnarskrefum sem stigin hafa verið í þá átt á síðustu árum.
Þar ber hátt bann hins opinbera við því að veitingamenn leyfi gestum sínum að njóta tóbaks á veitingastaðnum. Eins og Vefþjóðviljinn hefur margbent á: Það er húsráðandi en ekki gestir hans sem á að setja húsreglur, og sá sem af fúsum og frjálsum vilja fer inn á veitingastað þar sem eigandinn leyfir reykingar, sá maður hefur þar með samþykkt að anda að sér reyk. Enginn maður neyðir hann inn á staðinn. Hann veit af reyknum en fer samt inn.