H vað ætli sé mikið atvinnuleysi meðal þeirra sem unnu annars vegar á almennum markaði fyrir bankahrunið og svo hins vegar meðal þeirra sem unnu hjá ríki og sveitarfélögum? Það liggur í augum uppi að miklu fleiri misstu vinnuna á almennum markaði en hjá hinu opinbera. Það gæti verið ágætur mælikvarði á atvinnuöryggi manna að fá þessar upplýsingar fram. Voru ef til vill 90% þeirra sem misst hafa vinnuna frá bankahruninu að störfum í einkafyrirtækjum?
Flestir á almennum markaði töpuðu einnig lífeyrissparnaði, svonefnd áunnin réttindi hafa verið lækkuð hressilega í mörgum almennum lífeyrissjóðum að undanförnu og lífeyrir þeirra sem komnir eru á eftirlaunaaldur skertur. Þessir sömu sjóðsfélagar lífeyrissjóða og hafa verið að tapa réttindum að undanförnu þurfa hins vegar að greiða skatta til að tryggja lífeyri opinberra starfsmanna. Opinberir starfsmenn skulu fá sinn lífeyri verðtryggðan með vöxtum á hverju sem dynur.
Í morgun bárust fréttir af því að skrifað hafi undir kjarasamning á milli ríkisins og SFR, stærsta aðildarfélags BSRB. Bróðurpartur bæjarstarfsmanna samdi einnig við sveitarfélögin um leið. „Samningarnir eru á svipuðum nótum og þeir sem gerðir voru nýlega á almennum markaði,“ sagði í fréttum RÚV.
Er mönnum alvara með því að þeir sem héldu vinnu og lífeyrisréttindum eigi að fá sömu launahækkanir og þeir sem misstu lífeyrinn sinn og búa við miklu minna atvinnuöryggi? Og þeir síðarnefndu greiði allan pakkann fyrir þá fyrrnefndu?
Í síðustu viku bættist í Bóksölu Andríkis hin umtalaða bók Björns Bjarnasonar, Rosabaugur yfir Íslandi, þar sem hann fjallar um Baugsmála-árin á Íslandi og bregður upp sláandi mynd af íslenskri þjóðmálaumræðu þess tíma. Hinn þrautreyndi blaðamaður Andrés Magnússon skrifaði um bókina í laugardagsblað Morgunblaðsins og gefur henni þar fjórar stjörnur af fimm mögulegum, sem ekki þarf að koma á óvart.
Andrés hefur dóm sinn á því, að þótt undirtitill bókarinnar sé „Saga Baugsmálsins“ þá sé sakamálið sjálft í „fullkomnu aukahlutverki“ í bókinni, heldur sé athyglinni beint að þeim aðferðum sem hinir ákærðu og málsvarar þeirra hafi beitt í vörn sinni, „sem var svo skefjalaus að nær væri að ræða um sókn en vörn í því samhengi“, segir Andrés. Í niðurlagi dóms síns segir Andrés:
Rosabaugur yfir Íslandi veitir heildstæða mynd af átökunum á árunum fyrir hrun. Þar má á einum stað finna ótal heimildir um opinbera umræðu, þar sem margir létu glepjast, aðrir vildu glepjast og sumir höfðu þann starfa að glepja. Bókin er ómetanleg öllum þeim [sem] vilja skilja íslenskt samfélag á dögum bólunnar miklu, þann ofmetnað og ofstopa, sem átti drjúgan þátt í hruninu og gerði það miklu verra en ella. Hún er skyldulesning fyrir alla áhugamenn um íslensk þjóðmál, stjórnmál og ekki síst fjölmiðla. |
Undir það má taka, að allir þeir sem vilja skilja íslenskt þjóðfélag síðustu árin fyrir bankagjaldþrot hljóta að vilja kynna sér þessa bók. Bókina ætti enginn áhugamaður um íslensk stjórnmál að láta fram hjá sér fara. Eins og áður sagði fæst hún í Bóksölu Andríkis og kostar þar 3.990 krónur og er heimsending innanlands innifalin í verðinu.