Fimmtudagur 26. maí 2011

146. tbl. 15. árg.

Í Bóksölu Andríkis hefur nú bæst ein allra áhugaverðasta bók ársins. Í bók sinni, Rosabaugur yfir Íslandi, fjallar Björn Bjarnason, fyrrverandi dóms- og kirkjumálaráðherra, um sakamál þau sem nefnd voru Baugsmálið. Eins og flestir muna voru þau mál fyrirferðarmikil í fjölmiðlum og margir sem spöruðu þá hvorki stór orð né samsæriskenningar. Má telja víst, að afleiðingar þeirrar umræðu komi fram enn þann dag í dag, og birtist meðal annars í allskyns furðuhugmyndum fólks um ýmis þjóðfélagsmál, jafnvel um allt önnur mál.

Í pistli sem Björn Bjarnason skrifaði í gær, í tilefni af útkomu bókarinnar, sagist hann hafa ákveðið að ráðast í bókargerðina þegar hann kynnti sér skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, og þá sérstaklega svokallaðan siðferðihluta hennar, og séð að ekki hafi verið „minnst á Baugsmálið en á hinn bóginn býsnast yfir því að hér á landi hefði í aðdraganda hrunsins ráðið pólitísk stefna sem kenna mætti við „hugmyndafræði eftirlitsleysisins“.“ Hafi honum þótt „þessi kenning undarleg í ljósi alls þess sem gerðist á árunum 2002 til 2008 eða frá upphafi til loka Baugmálsins“.

Um efnistök sín segir Björn í pistli sínum:

„Bók mín er reist á opinberum heimildum. Gildi hennar felst í því að þessar heimildir eru dregnar saman á einn stað og þá blasir við mynd af einstæðum stjórnmála-, viðskipta, og fjölmiðlaátökum vegna ákæru gegn ráðandi mönnum í viðskipta- og fjármálalífinu. Staðreyndum er raðað saman og dregnar ályktanir. Hin stóra pólitíska mynd sem við blasir og reist er á staðreyndunum fellur ekki að því sem helst er hampað í opinberum umræðum. Á þann hátt er bókin til þess fallin að lýsa því sem er á bakvið tjöldin af því að margir forðast að ræða það fyrir opnum tjöldum.“

Bók Björns er fróðleiksnáma þar sem safnað er á einn stað ótal heimildum um það hvernig umræðan var um þessi mál á sínum tíma. Hún er ómetanleg öllum þeim vilja skilja íslenskt þjóðfélag síðustu árin fyrir gjaldþrot stóru viðskiptabankanna. Allir áhugamenn um íslensk stjórnmál og íslenskt þjóðfélag hljóta að kynna sér hana. Bókin fæst í Bóksölu Andríkis og kostar þar 3.990 krónur og er heimsending innanlands innifalin í verðinu. Við erlendar pantanir bætist 600 króna sendingargjald.