S ífellt er þrengt að frelsi fólks og stjórnlynt fólk með barnfóstrutilhneigingar reynir jafnt og þétt að fá að hafa vit fyrir hinum almenna manni. Margt af því á uppruna sinn á skrifstofum hinna ókosnu ráðsherra í Brussel, sem dæla tilskipunum yfir sífellt valdaminni þjóðríki.
Kristinn Snæland, roskinn rafvirkjameistari, skrifar prýðilega grein í Morgunblaðið í dag og rifjar upp að þegar hann var ungur heillaðist hann af þeirri hugmynd að athafnafrelsi hins almenna borgara ætti að vera sem mest. Hann segist hafa alist upp við margskonar störf, hafið nám í rafvirkjun 17 ára gamall, orðið sveinn í faginu fjórum árum síðar og meistari öðrum þremur árum síðar. Á kvöldnámskeiði hafi hann tekið meirapróf og hafi svo fengið rútupróf á einni dagstund. Hafi hann þá getað ekið öllum ökutækjum, frá skellinöðrum upp í stærstu rútur.
Smám saman hafi hins vegar tekið „að verða til með einhverjum dularfullum hætti ýmsar reglur sem torvelduðu fólki að ná svona réttindum. Og vinna með þeim vegna margskonar breytinga á reglum um störfin. Ökuprófin verða menn nú að taka í mörgum og kostnaðarsömum áföngum. Fyrst skellinöðruréttindum, þá mótorhjólaprófi, þá bílprófi, næst meiraprófi sem felur í sér réttindi til að aka leigubílum og vörubílum og loks rútuprófi. Þegar allt þetta er fengið verða reglurnar enn flóknari, leigubílstjórinn á að þurfa að taka með nokkurra ára millibili námskeið sem felur í sér endurhæfingu. Allir atvinnubílstjórar eru skyldir til þess að hlíta hvíldarreglum og fá þungar sektir ef út af er brugðið.“
Og Kristinn heldur áfram:
Flutningabílstjóri sem vegna öryggis að vetrarlagi tekur sér tíma undir Bólstaðarhlíðarbrekku til að keðja bílinn í öryggisskyni yfir Vatnsskarðið og veður þess vegna e.t.v. hálftíma of seinn í Varmahlíð getur fengið tuga þúsunda króna sektir fyrir aðgæslu sína. Börn sem áður störfuðu sér og sínum til gagns við fjölbreytt atvinnulíf og tóku með því út þroska og lærdóm, mega ekki lengur vinna þar sem vélar eru nærri. 17 ára piltur tók vinnuvélapróf sem fól í sér réttindi til að vinna með gröfu (sem nú er fokdýrt). Fékk vinnu hjá rafveitu, en fyrst um sinn aðeins við að leggja kapla niður í skurði. Skömmu síðar kom verkstjórinn afsakandi og sagðist ekki geta haft hann í vinnu þar sem grafa væri notuð til þess að setja sand undir kaplana í skurðinum? Hvers vegna ekki? Jú, þú mátt ekki vinna nálægt gröfunni fyrr en þú verður átján ára. |