Þ að eru ekki skemmtileg örlög að búa í ofstjórnarríki, þar sem óbrúanleg hyldýpisgjá er milli yfirstéttar sem dansar á rósum hvað sem á dynur, og allrar alþýðu manna sem reynir að draga fram lífið, soltið og klæðlítið. Þar sem venjulegt fólk lepur dauðann úr skel en elítan byggir glæsihallir og situr þar í skrautklæðum og sinnir eigin áhugamálum. Þar sem almenn fátækt og efnahagshörmungar draga ekki á neinn hátt úr ákefð yfirstéttarinnar að mergsjúga venjulegt fólk til að reisa hallirnar sem hana langar í.
Skýrt dæmi um slíkt land er Norður-Kórea. Þar býr allur þorri fólks við kúgun og oft hreint og klárt hungur. Uppskera bregst, fólk sveltur, frjáls viðskipti eru nær engin og allt er í höndum ríkisins. Á kvöldin er rafmagnið slökkt og myrkur leggst yfir landið. Það er bókstaflega svo að heil kynslóð Norður-Kóreubúa þekkir vart rafmagnsljós að kvöldi heldur situr heima í myrkri frá kvöldmatartíma. En yfirstéttin hefur litlar áhyggjur af því þótt venjulegir borgarar eigi hvorki til hnífs og skeiðar, eða hvort þeir eiga yfirleitt nokkra skeið. Elítan lifir í eigin heimi og þar skortir sjaldnast glæsileikann.
Á dögunum kom í Bóksölu Andríkis ný og afar áhrifamikil bók um líf fólks undir kommúnistastjórninni í Norður-Kóreu. Bókin nefnist því óvenjulega nafni, Engan þarf að öfunda, og dregur heiti sitt af söng sem norðurkóresk börn eru látin syngja, til að innræta þeim að aðrir hafi það ekki neitt betra en þau.
Um bókina var fjallað í löngum ritdómi í Morgunblaðinu í dag og voru henni þar gefnar fjórar stjörnur, sem engan þarf að undra sem lesið hefur hana. Segir þar að skelfilega margt í stjórnkerfi Norður-Kóreu sé hreinlega líkt hryllingnum sem George Orwell lýsti í sinni heimsfrægu sögu, 1984, og menn héldu að ekki vofði yfir fólki lengur. Óhætt er að taka undir niðurlagsorð ritdómsins: „Þetta er tvímælalaust bók sem hægt er að mæla með, áhrifarík og upplýsandi og skelfilega sannfærandi.“
Engan þarf að öfunda fæst í Bóksölu Andríkis og kostar þar aðeins 1990 krónur, heim send innanlands.