V ið umrótið sem varð í kjölfarið á gjaldþroti viðskiptabankanna þriggja og síðar nokkurra stórra fyrirtækja, virðast margir hafa misst trúna á einkarekstri eða viðskiptalífinu almennt. Margir virðast hafa komist að þeirri niðurstöðu að öruggast sé að sem mestur rekstur sé í höndum „fagmanna“ ríkisins eða að minnsta kosti undir ströngu eftirliti þeirra. Þessu blandast sú nýja trú margra, að fyrirtækjarekendur og aðrir stuðningsmenn einkarekstrar séu hálfgerðir glæpamenn sem hafi snuðað varkára samborgara sína með „taumlausri græðgi“ sinni.
Vissulega er ekki allt fallegt sem sagt hefur verið frá úr rekstri sumra þeirra fyrirtækja sem áberandi voru fyrir nokkrum árum. Vafalaust munu margir spyrja sig, ef í ljós kemur að þar sé rétt frá öllu sagt, hvort frekari vitnanna þurfi við um þetta bévítans viðskiptalíf.
Það getur verið auðvelt að alhæfa.
Þrjár svipmyndir geta komið í hugann, ef menn vilja dæma heildina eftir hluta hennar.
Í upphafi gsm-símabyltingar auglýsti verslun í Kringlunni að ef einhver viðskiptavinur kæmi allsnakinn í búðina þann daginn, fengi hann frían síma. Birgðirnar þraut fyrr en varði, því tugir kviknakinna manna birtust óðara og fóru þeir fyrstu hróðugir út með nýjan síma, en hinir fengu ekkert nema skemmtiferð í Kringluna.
Karlmannafataverslun í Hafnarfirði gerði mönnum svipað kostaboð. Allsnaktir menn gætu fengið gefins jakkaföt. Þar fylltist allt. Allsnakið fólk, karlar og konur, tróðst hvert um annað í von um auðveldan vinning. Allar slár tæmdust þegar menn sáu sér leik á borði að fá ný spariföt fyrir ekkert.
Ungir menn sem stýrðu skemmtiþáttum í sjónvarpi fóru í Kringluna og buðu fólki þar fimmtánþúsund króna greiðslu ef það vildi vera svo vænt að sleikja gólfið fyrir framan myndavélar. Þar græddu margir væna summu á skömmum tíma.
Fyndist fólki nú sanngjarnt ef af þessum dæmum yrðu dregnar allsherjarályktanir um íslenskan almenning? Ef einhver myndi slá því fram að „venjulegt fólk“ væri til í næstum hvað sem væri fyrir auðveldan pening og skyndigróða?
Nei það væri ekki sanngjarnt. Vafalaust myndi yfirgnæfandi meirihluti landsmanna afþakka slík viðskiptatækifæri þótt þau byðust. En þeir sem mæta allsberir í fataverslanir fá auðvitað meiri athygli en hinir.
Það væri ekki sanngjarnt að dæma alla landsmenn eftir þeim sem sleikja gólf og fara naktir í símabúðir. Það er ekki heldur sanngjarnt að alhæfa um einkarekstur og viðskiptalíf eftir þeim sem þar kunna að hafa gengið lengst.