G ylfi Arnbjörnsson forseti Alþýðusamfylkingar Íslands var vígreifur í fréttum í dag og nú vildi hann alls ekki gera þann þriggja ára kjarasamning sem hann víst vildi fyrir nokkrum dögum. Skýringin sem Gylfi gaf, var að Samtök atvinnulífsins hefðu gert þriggja ára kjarasamning fyrir hönd Elkem við starfsmenn fyrirtækisins, og þar hefði yfirvofandi árás ríkisstjórnarinnar á sjávarútveginn engu máli skipt.
Ætli Gylfi meini þetta? Er ekki augljóst að um fyrirtæki eins og Elkem, sem er stór verksmiðja sem framleiðir og selur kísiljárn til stálvera, gildir öðru máli en almennt um atvinnulífið, að því leyti að rekstrarmöguleikar sjávarútvegsins koma því lítið við? Er ekki miklu nær að líta svo á, að sérstakur samningur fyrir hönd slíks atvinnurekanda, sé vísbending um það séu fyllilega málefnaleg sjónarmið sem ráði því að í flestum tilvikum vilji menn ekki skuldbinda sig til margra ára, nema hafa tryggingu fyrir því að ekki verði ráðist að grunnatvinnuvegi landsins?
Og það var svo dæmigert fyrir hugsunarháttinn hjá ASÍ að Gylfi Arnbjörnsson sagði í viðtali að þessi samningsgerð Samtaka atvinnulífsins fyrir hönd Elkem hefði gengið fram af ekki aðeins samninganefndinni hans Gylfa heldur „öllu launafólki“. Já já, vel á annað hundrað þúsunda manna gengur um í ofsareiði vegna Elkem-samninganna. Verkalýðsforstjórarnir hætta seint að tala í nafni allra „félagsmanna“ sinna.
S vo eru það spekingarnir á Samkeppniseftirlitinu. Nú eru þeir búnir að leggja dagsektir á Seðlabankann til að knýja hann til að afhenda einhverjar upplýsingar sem bankinn telur óheimilt að veita. Hvað sem um þá kröfu má segja, þá ættu flestir að sjá að dagsektir koma hér ekki til greina. Dagsektir eru þvingunarúrræði sem hugsað er til þess að knýja menn til að fullnægja einhverri skyldu sinni, og eru ákveðnar þannig að menn muni um þær. Seðlabanka, sem gefur út eigin mynt, munar hins vegar ekkert um dagsektir. Seðlabanki Íslands hefur þannig ótakmarkað gjaldþol í íslenskum krónum. En þegar dagsektir geta ekki orðið til þess að knýja hann til efnda, hvers vegna er þá verið að leggja þær á?
F lestar sjónvarpsstöðvar heims sýndu í dag tímunum saman frá brúðkaupi Vilhjálms prins og unnustu hans. Að minnsta kosti einn fjölmiðill náði auk þess að finna lítinn hóp mótmælenda og sýna viðtal við fulltrúa hans í fréttatíma sínum. Íslenska ríkissjónvarpið þarf að notast við eitthvað eftir að áhugi þess á innlendum mótmælum snarminnkaði 1. febrúar 2009.