Þ ví sem næst frá fæðingu ertu 14 stundir á dag á barnaheimili ríkisins þar sem þér er innrætt trú á leiðtogann góða, allt hið góða í lífinu komi frá honum. Foreldrar þínir starfa í verksmiðjum leiðtogans en áður en þeir sækja þig og halda heim á leið eiga þeir nokkurra klukkustunda samverustund með vinnufélögum sínum þar sem farið er yfir helstu kosti leiðtogans og yfirburði þjóðarinnar á öllum sviðum.
Þegar loks er komið heim í húsnæðið sem leiðtoginn hefur náðarsamlegast útvegað þér er fyrsta verk að strjúka ryk af myndum af leiðtoganum og síðar einnig mynd af dýrðlegum syni hans. Á öllum heimilum er askja undir myndunum með hvítum klút sem ætlaður er í það verk og ekkert annað. Mánaðarlega mæta fulltrúar stjórnarinnar og kanna hvort afþurrkun á myndunum sé ekki sinnt og hvort nokkur hafi framið hryðjuverk gegn leiðtoganum með því að hengja til dæmis mynd af fjölskyldunni sinni á sama vegg. Á afmælum fá börnin auðvitað gjafir og sætindi – það er að segja á afmæli leiðtogans.
Í bókinni Engan þarf að öfunda eru sagðar sögur sex flóttamanna frá Norður-Kóreu. Bókin kom út á íslensku á dögunum hjá Bókafélaginu Uglu. Höfundur hennar er Barbara Demick sem stýrir skrifstofu Los Angeles Times í Kína.
Ofan í nær fullkominn skort á almennum mannréttindum í Norður-Kóreu bætist sívaxandi skortur á helstu lífsnauðsynjum, hungur og vosbúð. Við lok Kalda stríðsins misstu einræðisfeðgarnir helstu bakhjarla sína í Moskvu og Beijing. Á sama tíma lauk útkomu Þjóðviljans en allt fram á síðasta dag lét það blað á stundum eins og það væri nú ansi umdeilt hve slæmt þjóðfélag Norður-Kórea væri. Hinn 28. júlí 1989 birti Þjóðviljinn til að mynda opnu frásögn af för ungmenna á „Heimsmót æskunnar“ í Norður-Kóreu undir fyrirsögninni „Til móts við Kim Il Sung“. Svo sagði frá hinni miklu dýrkun á leiðtoganum sem öllum mátti vera ljóst að var ekkert annað en sturlun: „Leiðtogadýrkunin á þó sínar eðlilegu skýringar. Foringjadýrkun hefur löngum loðað við austur-asísk ríki og nægir þar að nefna dýrkun Japana á keisaranum. Reyndar þarf ekki að fara til Asíu til að finna hliðstæður þótt ekki séu eins stórkarlalegar. Hvernig láta ekki Bretar með konungsfjölskylduna?“
Allt mjög eðlilegar skýringar, hva fella ekki gamlar konur á Kornvöllum enn tár þegar minnst er á drottningarmóðurina? Það er alveg sambærilegt við að innræta leikskólabörnum aðdáun á manninum sem heldur þeim og öðrum landsmönnum í þrælabúðum.
Engan þarf að öfunda fæst í Bóksölu Andríkis fyrir kr. 1.990 með heimsendingu innanlands. Við sendingar til útlanda bætast kr. 600.