Mér finnst merkilegt að þeir stjórnarliðar sem björguðu þjóðinni frá þessum fyrsta samningi skuli hafa verið úthrópaðir sem „órólega deildin“. Ég hefði haldið að þessir einstaklingar ættu þakkir skildar fyrir að synda á móti straumnum. |
– Ásmundur Einar Daðason alþingismaður í viðtali við sunnudagsblað Morgunblaðsins. 24. apríl 2011. |
Á smundur Einar Daðason alþingismaður er í viðtali við sunnudagsblað Morgunblaðsins og fjallar þar meðal annars um ástandið innan vinstrigrænna og stjórnarhætti þar á bæ. Kemur meðal annars fram hjá honum, að þess hafi verið krafist sumarið 2009 að ríkisstjórn og þingmenn samþykktu Icesave-samninginn, sem kenndur hefur verið við Svavar Gestsson, án þess að fá að lesa samninginn. Skrifað hafi verið undir samninginn þótt vitað hafi verið að ekki hafi verið meirihluti fyrir honum á alþingi.
Hér segir Ásmundur Einar frá því sama og Atli Gíslason sagði frá, þegar Atli fékk á dögunum nóg og gekk úr þingflokki vinstrigrænna. Fjölmiðlar hafa sýnt þessu magnað áhugaleysi. Álitsgjafar og stjórnarþingmenn hafa sungið mikinn söng um slæm vinnubrögð annarra, gagnrýnisleysi þingmanna og „yfirgang framkvæmdavaldsins gagnvart löggjafarvaldinu“, en þegar kemur í ljós að stjórnarherrarnir hafi viljað að þingmenn samþykktu fyrsta og versta Icesave-samninginn, án þess að fá að lesa hann, þá leiða álitsgjafarnir það hjá sér. Hvenær heyrist þetta rifjað upp? Hvenær er „krafist rannsóknar“ á þessu? Álitsgjafar ráðast samfellt á þá þingmenn vinstrigrænna sem þó létu ekki kúga sig að þessu leyti, þessir þingmenn þykja „órólegir“, „óreyndir“ og ómögulegir í samstarfi.
Aldrei velta álitsgjafarnir fyrir sér hvað segja megi um hina þingmenn vinstrigrænna, þessa sem ekkert virðist benda til að hafi séð neitt athugavert við að vera gert að samþykkja Icesave-óséð. En þeir eru mjög hneykslaðir á Ásmundi Einari fyrir að hafa ekki sýnt Steingrími J. næga kurteisi áður en hann sagði skilið við stjórnarmeirihlutann.