Leiðangur á tind Everestfjalls, sem kenndur er við bresku verslunarkeðjuna Iceland, lenti í vanda um helgina þegar flutningabíll, sem flutti útbúnað leiðangursins, valt niður í gil í Nepal. Iceland Everest leiðangurinn er undir stjórn ævintýramannsins Davids Hempleman-Adams en Malcolm Walker, forstjóri Iceland, og Richard sonur hans eru meðal leiðangursmanna. |
– Iceland-leiðangur í vanda, frétt á mbl.is í morgun |
Í slendingar hafa fengið að heyra það alloft á undanförnum vikum að krúnudjásnin í þrotabúi Landsbankans séu verslanir Iceland Foods í Bretlandi, en þar geta menn keypt frosna rétti. Jafnoft hafa menn heyrt ævintýralegar tölur um kauptilboð í verslanirnar sjálfar, sem þó hafa ekki verið samþykkt. Því til viðbótar hafa ýmsir kunnir rekstrarmenn sagt frá því að arður sé greiddur út úr verslununum án þess að það hafi áhrif á verðmæti þeirra. Milljónir punda séu teknar út í arð en það hafi engin áhrif á það sem fyrir var eða eftir stendur.
Öll þessi ævintýr úr frystikistum Iceland Foods voru sögð í þeim tilgangi að fá Íslendinga til að skrifa upp á risavaxið myntkörfulán vegna Icesave reikninga Landsbankans.
En á meðan Íslendingar hlýddu á frásagnir af gullgæsinni Iceland Foods lagði Malcolm nokkur Walker af stað upp á Everest. Walker er ekki aðeins stofnandi þessara verslana heldur maðurinn sem talinn er hafa bjargað þeim frá þroti með endurkomu í forstjórastólinn fyrir nokkrum árum. Walker er maðurinn sem kann á þennan rekstur. Og síðast en ekki síst er Walker maðurinn sem lagt hefur fram hin myndarlegu tilboð í verslanirnar.
Eins og ríkisstjórnin kynnti svo vel fyrir Íslendingum var nær engin áhætta fólgin í því að skrifa upp á myntkörfulánið vegna Icesave III.
Það sést best á því að það var bíll með búnaði Malcolms Walkers sem valt niður í gil á leið upp á Everest, en ekki bíll með Walker sjálfum.