Laugardagur 9. apríl 2011

99. tbl. 15. árg.
Ég tel, frú forseti, að úr því að ríkisstjórnin lagði málið upp með þessum hætti sé okkur ekki heimilt, engum þingmanni, að segja já við þessu. Okkur er ekki heimilt, frú forseti, þingmönnum á Alþingi Íslendinga að láta beygja þjóðina með þessum hætti af erlendum ríkjum. Okkur ber að segja nei og það er hörmulegt að ríkisstjórninni skuli hafa mistekist að ná samstöðu á Alþingi og með þjóðinni í málflutningi okkar gegn hinum erlendu ríkjum, sem ætla að kúga okkur til þess að greiða peninga sem okkur ber ekki skylda til að greiða.
– Illugi Gunnarsson, formaður þingflokks Sjálfstæðisflokksins, gerir grein fyrir atkvæði sínu þegar Icesave II var afgreitt á Alþingi.

Í dag fá íslenskir kjósendur einstakt tækifæri. Það skiptir verulegu máli hvernig þeir nýta það. Í annað skipti í sögunni gefst þjóð kostur á að taka ákvörðun um hvort gríðarlegar einkaskuldir fyrirtækis verði þjóðnýttar eða ekki. Með því að segja NEI, munu Íslendingar ekki aðeins standa réttmætan vörð um eigin hag, heldur senda innlendum og erlendum stjórnmálamönnum þau skilaboð að þeir geti ekki endalaust ráðskast með almannafé til að skera áhættusæknustu fjármagnseigendur niður úr sjálfhnýttum snörum sínum.

En það er ekki aðeins NEI-ið sem myndi senda skýr skilaboð. Ef Íslendingar gefast upp fyrir ofurþrýstingi þjóðfélagsyfirstéttarinnar og segja JÁ, þá verða þar einnig komin skilaboð. Þá fá stjórnmálamenn einu sinni enn þá mynd að kjósendur hafi ekki úthald. Þeir munu fá þá mynd að með samstilltu átaki fjölmiðla ríkis og útrásarmanna, hagsmunahópa, stjórnmálamanna, menntaelítunnar og almennra krata megi þrýsta fjöldanum til að gefast upp fyrir hinum talandi stéttum. Með íslensku JÁ-i fá stjórnmálamenn og bankamenn þau skilaboð að þeir geti haldið áfram eins og ekkert hafi í skorist, áfram verði skattgreiðendur flegnir svo slá megi skjaldborg um gullgrísina.

Það er skelfilegt að nokkrir menn hafi orðið til þess að rjúfa samstöðu borgaralegra afla gegn þeirri ósvinnu sem „Icesave-samkomulagið“ er.

A uðvitað liggur fiskur undir steini. Eiríkur Bergmann Einarsson lýsti í gær þeirri skoðun sinni, að JÁ í kosningunni í dag væri skilyrði þess að innganga Íslands í Evrópusambandið næði fram að ganga. Sömu skoðunar eru flestir kratar. Það skýrir ákafann og taugaæsinginn í Samfylkingarmönnum sem nú leggja allt í sölurnar til að þrýsta landsmönnum til að segja já. Þess vegna voru þeir flestir jafn ákafir að fá Icesave II samþykktan.

ÍÍ fyrradag efndi Ríkissjónvarpið til sjónvarpsumræðna um Icesave, þar sem fengnir voru til þátttöku þrír hæstaréttarlögmenn sem allir hafa barist fyrir samþykkt Icesave-laganna og til mótvægis einn héraðsdómslögmaður sem barist hefur gegn lögunum. Þeir í Efstaleiti eru ekkert að grínast.

Á Íslandi situr ofstækis-stjórn vinstrimanna, sem gengur fyrir heift og hatri. Hún þvælist fyrir uppgangi efnahagslífsins, hún er dragbítur á framfarir og hún elur á ólgu og klofningi innanlands. Meira að segja stjórnarskrána gat hún ekki séð í friði. Það er brýnt verkefni eitt og sér að koma þessar ríkisstjórn frá völdum með öllum löglegum leiðum. Rökin gegn samþykkt Icesave-laganna eru hins vegar yfirgnæfandi, án þess að horft sé til ríkisstjórnarinnar. Enginn þarf að hugsa um ríkisstjórnina til að gera upp hug sinn í kosningunni. En að því sögðu blasir auðvitað við, að með því að hafna Icesave-lögunum greiða menn þessari skelfilegu ríkisstjórn þungt högg. Það er svo auðvitað í takt við annað, að Tryggvi Þór Herbertsson þingmaður Sjálfstæðisflokksins hélt því fram í blaðagrein í gær, að menn ættu að segja já – til að fella ríkisstjórnina. Maðurinn hikar hreinlega ekki við að láta eins og í stjórnarráðinu sitji þau Jóhanna og Steingrímur skjálfandi á beinunum af ótta við að andstæðingar þeirra fari að hollráðum Tryggva Þórs og segi já.

Þ egar horft er til efnisatriða Icesave-málsins ber allt að sama brunni. En menn eiga ekki að þurfa að velta sér upp úr tæknilegum atriðum og útfærslum. Grundvallaratriði málsins eru afar einföld. Hér að ofan var vitnað til orða Illuga Gunnarssonar sem hann mælti á Alþingi þegar hann gerði grein fyrir atkvæði sínu gegn Icesave II. Þessi orð hans eiga eins við um Icesave III. Grundvallaratriði Iceave II og III eru þau sömu, þótt vaxtaprósenta og nokkur útfærsluatriði séu mismunandi. Í báðum samningum er reynt að þvinga Íslendinga til að greiða það sem þeim ber ekki að greiða. Því eiga Íslendingar að hafna, með skýrum hætti. Rétt eins og þeir höfnuðu Icesave II réttilega, eiga þeir í dag einn kost sem fullur sómi er að.

Ef Íslendingar láta í dag ekki undan þrýstingi hagsmunahópa, kerfiskarla og Evrópusinna, þá fær Evrópa þau hollustu skilaboð sem hún hefur lengi fengið: Einkaskuldir verða ekki þjóðnýttar. Stjórnvöld og bankahöfðingjar geta samið sín á milli um skjaldborg á almannakostnað, en íslenskir kjósendur segja nei og aftur nei.