Í
Átti að stefna Bretum vegna beitingar hryðjuverkalaga? |
Samkvæmt könnun MMR telur mikill meirihluti landsmanna að íslensk stjórnvöld hefðu átt að leita réttar síns fyrir dómi vegna beitingar Breta á hryðjuverkalögum gegn Íslendingum. |
slendingar hafa í seinni tíð ekki verið í verri stöðu í efnahagsmálum en í byrjun október 2008. Fjármálakerfi landsins riðaði til falls. Forsætisráðherrann bað guð að blessa landið í sjónvarpsávarpi síðdegis á mánudegi 6. október. Óvíst var hvort tækist að halda daglegum viðskiptum Íslendinga innan lands sem utan gangandi.
Ofan í þessi ósköp beittu bresk stjórnvöld lagaheimildum um hryðjuverk gegn íslenska ríkinu, Seðlabanka Íslands og Landsbanka Íslands. Bretar settu Ísland einfaldlega á bás með helstu hryðjuverkasamtökum hinn 8. október 2008. Forsætis- og fjármálaráðherra Breta úthrópuðu Íslendinga og íslensk fyrirtæki í heild sinni í fjölmiðlum næstu daga. Gordon Brown forsætisráðherra lýsti því yfir 9. október að bresk stjórnvöld „væru að frysta eigur íslenskra fyrirtækja hvar sem til þeirra næðist.“
Mörgum hefur blöskrað þessi framkoma Breta. The Wall Street Journal sagði nýlega að Bretar hefðu verið í „rógsherferð“ gegn Íslandi í tvö og hálft ár.
Bretland er ein af fjármálamiðstöðvum heimsins og því var þessi aðgerð Breta meira en orðin tóm. Að stórveldi grípi til slíkra bakhrindinga gegn fámennri nágrannaþjóð sem stendur á ystu nöf í efnahagsmálum sínum er í raun óskiljanlegt og væri hægt að nota mörg og stór orð um.
Íslensk stjórnvöld hafa af einhverjum ástæðum aldrei látið reyna á réttmæti þessarar atlögu Breta. Þau hafa jafnvel ekki reynt á glöggva sig á skaðanum. Þessar sömu ríkisstjórnir Íslendinga hafa hins vegar ítrekað gert samninga við Breta um að Íslendingar greiði skuldir Landsbankans, sem enginn fótur er þó fyrir í lögum.
Í þessu ljósi þótti Andríki forvitnilegt að láta kanna hvort Íslendingar almennt vildu láta reyna á réttmæti þess að Bretar beittu ákvæðum laga um varnir gegn hryðjuverkum gegn Íslandi. MMR gerði könnun á því dagana 8. til 11. mars síðastliðinn. Spurt var: Telur þú að íslensk stjórnvöld hefðu átt að stefna breskum stjórnvöldum fyrir dóm vegna beitingar hryðjuverkalaga gegn Íslendingum í nóvember 2008?
Skemmst er frá því að segja að yfirgnæfandi meirihluti eða 86,5% svaraði spurningunni játandi. Aðeins 13,5% svöruðu neitandi.
Íslendingar eru hið minnsta ekki smeykir við „dómstólaleiðina“ í þessum efnum.
Í því samhengi má nefna að fyrir Alþingi hefur um hríð legið þingsályktunartillaga frá Gunnari Braga Sveinssyni, Pétri H. Blöndal og fleirum um málshöfðun á hendur breska ríkinu fyrir alþjóðlegum dómstól vegna beitingar hryðjuverkalaganna. Það er athyglisvert að í hópi 14 flutningsmanna er enginn þingmaður sem studdi Icesave III við afgreiðslu Alþingis.