Þ eir sem styðja Icesave III opinberlega eru flestir gamlir jámenn úr Icesave II. Helsti rökstuðningur þeirra nú er að Icesave III sé skárri en Icesave II. Því til viðbótar leggja þeir áherslu á að samningurinn muni aðeins kosta Íslendinga 30 – 50 milljarðar króna og með samningnum „ljúki“ menn málinu.
Hér að neðan er úrklippa úr kynningu fjármálaráðuneytisins þar sem helstu áhrifaþættir í Icesave III eru kynntir.
Hér viðurkennir sjálft fjármálaráðuneytið að ýmsir óvissuþættir hafi áhrif á kostnað ríkissjóðs.
- Vaxtakjör hafa áhrif en eftir júní 2016 verða vextir „vegið meðaltal af þeim útflutningslánavöxtum (CIRR-vöxtum), í evrum og pundum, sem samsvara lánstíma lánsins,“ eins og segir í kynningu fjármálaráðuneytisins.
- Um gengisáhættuna segir fjármálaráðuneytið meðal annars: „Gjaldeyrisáhætta myndast vegna ójafnvægis gjaldmiðla milli eigna-og skuldahliðar.“
- Hinir efnahagslegu fyrirvarar eru um að árlegar greiðslur fari ekki yfir ákveðið hlutfall ríkissjóðstekna eða landsframleiðslu. „Endurgreiðslutíminn lengist eftir því sem eftirstöðvarnar 2016 hækka.“
- Og svo eru það endurheimturnar úr þrotabúi Landsbankans og hvenær þær hefjast. Fjármálaráðuneytið nefnir sem dæmi ef svonefndar áhættusamar „eignir verða endurheimtar einungis að 4/5 af því sem skilanefnd Landsbankans gerir ráð fyrir.“ Og ef „sjóðstreymið tefst þ.a. engar útgreiðslur verða úr búi LBI fyrr en 2013.“ Nú þá falla 98 milljarðar króna á ríkissjóð.
Að nefna þessa stöðutöku án eigir fjár í verðbréfasafni með gengisáhættu að „ljúka máli“ sýnir að menn hafa ekkert lært. Flest stærstu fyrirtæki landsins og ótrúlegur fjöldi annarra félaga og einstaklinga urðu afvelta á einmitt slíkri hegðun. Hvers vegna bæta menn ekki bara við að þetta sé líka „spennandi tækifæri“.
H ér eru spurningar til þeirra sem hafa miklar áhyggjur af því að bankar Evrópusambandsins (EIB og EBRD) láti milliríkjadeilur um Icesave-málið hafa áhrif á lánveitingar til íslenskra ríkisfyrirtækja.
Telja þeir að bankar Evrópusambandsins láni eftir viðskiptalegum forsendum?
Ef já, þarf þá nokkuð að óttast að pólitískt þras um Icesave hafi áhrif á svo ágætar stofnanir?
Ef nei, vilja menn að bankar sem lána eftir pólitískum þrýstingi og öðrum ómálefnalegum forsendum fjármagni íslenskt atvinnulíf?