T veir stjórnarþingmenn, annar þeirra auk þess formaður viðskiptanefndar þingsins, hafa á síðustu dögum talað fyrir því að tekjuskattur á einstaklinga verði hækkaður þannig að ríki og sveitarfélög taki 80 af hverjum 100 krónum sem borgarinn vinni sér inn. Að vísu ætla þingmennirnir ekki að sinni að skattleggja allar tekjur manna með þessum hófsamlega hætti, heldur miða við tekjur umfram það sem þeim þykir hæfilegt, sem mun vera einhvers staðar mjög rétt fyrir ofan tekjur þingmanna og ráðherra Samfylkingarinnar.
Að minnsta kosti tveir ráðherrar, annar þeirra fjármálaráðherra og hinn Ögmundur Jónasson, hafa þegar tekið undir þessar hugmyndir. Engir ráðherrar hafa heyrst mótmæla þeim og raunar fáir þingmenn. Sigurður Kári Kristjánsson er þó sem löngum fyrr á verði og á vefsíðu sinni varar hann eindregið við slíkum ofsaskattahugmyndum. Undir þau andmæli er sjálfsagt að taka, af ótal ástæðum.
„Og við hvert slíkt atriði, þar sem gildismati Gunnars og Héðins er þröngvað upp á Njál, þá minnkar einstaklingurinn. Og þegar einstaklingurinn minnkar þá stækkar í honum nafnlausa ríkiseignin. Og þeir Gunnar og Héðinn, sem létu sér vel líka þegar Njáll var beygður undir gildismat þeirra, munu komast að því að sjálfir minnkuðu þeir líka þegar stigið var á Njál. Næst fer þeirra eigið gildismat, á einhverju öðru sviði, sömu leið.“ |
Fyrir utan augljós atriði eins og að ekki eigi, og síst við núverandi aðstæður, að draga úr áhuga fólks á því að vinna mikið og afla tekna, að ekki eigi senda ungu fólki sem nú er erlendis í dýru námi þau skilaboð að hér heima bíði þeirra skattpíning ef þeim gangi vel, að ekki eigi að senda heiminum þau skilaboð um íslenskt þjóðfélag sem sem felast í orðunum 80% skattheimta, þá er fleira sem skiptir máli.
Á síðustu árum hefur sífellt orðið grynnra á þeirri hugmynd stjórnlynds fólks, að einstaklingurinn sé í raun eign ríkisins. Þetta hefur haldist í hendur við hratt vaxandi máttleysi og baráttuógleði þeirra sem hafa tekið að sér að tala máli frelsis einstaklingsins. Á þingi er nú svo komið, að það er einn og einn máttvana maður sem heldur fram því sjónarmiði að einstaklingurinn skuli sem mest sjálfráða en að fulltrúar ríkisins hafi í raun engan rétt til að skipuleggja líf hans.
Þingmenn, sem telja sig hafa rétt til að banna einstaklingi að vinna sér inn fé, umfram einhverja fjárhæð sem þingmennirnir velja eftir eigin gildismati, þeim finnst sá maður ekki vera annað en réttlaust núll, nafnlaust tannhjól í vél í ríkisins. Þegar menn eru farnir að gera upptækar til ríkisins áttatíu af hundrað krónum sem einstaklingur vinnur sér inn, þá eru þeir í raun búnir að banna honum að vinna sér inn laun. Þegar lagður er á 80% skattur, á tiltekin laun, þá er auðvitað búið að ákveða að þau laun falli til ríkisins en ekki til þess sem vann fyrir þeim.
Og þannig er þetta á sífellt fleiri sviðum. Einstaklingurinn verður minna og minna, ríkið meira og meira. Næstum daglega eru settar nýjar reglur þar sem ríkið kveðst hafa hugsað fyrir borgarann og skipar honum fyrir um skynsamlega hegðun. Sú hegðun, sem ráðamönnum þykir óskynsamleg, hún er æ oftar bönnuð eða skattlögð sérstaklega. Á þingi og í sveitarstjórnum mótmæla örfáir menn og eru úthrópaðir sem öfgamenn.
Það er bannað að opna veitingahús og leyfa gestunum að reykja. Það er óheimilt að reka verslun nema vera með verðmiða úti um allt. Ríkið rekur „lýðheilsustöð“ sem heimtar skatt á sykur og aðra drykki en vatn. Hættu að nota bílinn þinn og farðu að hjóla. Hjólaðu með hjálm. Þú mátt ekki dansa nakinn gegn greiðslu. Leggðu fyrir til efri áranna. Hefur fjölskylda þín átt bújörð í þúsund ár já, ja það er sama, nú ætlum við að leggja verðmæti hennar undir ríkið því þær eru auðlind og við viljum fá þær. Krakkar, hættiði strax að safna í þessa áramótabrennu, það kemur bíl frá borginni með köstinn og annar sem slekkur í, fjórum tímum síðar. Settu köttinn þinn í taum. Vinna bæði hjá þér karl og kona, þú verður að semja eins við þau bæði, sama hvaða kröfur þau gera hvort um sig. Ætlarðu að setja kvist á húsið þitt já, sæktu þá um leyfi, borgaðu gjald og bíddu í hálft ár, skipulagsdeildin hefur samband við þig. Sendu krakkann þinn í skólann, við þurfum að kenna honum hvað eru leyfðar skoðanir og hvað eru fordómar, svo borðar hann í mötuneytinu. Ef okkur líkar ekki vara þá máttu ekki auglýsa hana og ef við leyfum þér á annað borð að selja hana þá má hún ekki sjást í búðinni hjá þér.
Alltaf má taka meira og meira af fólki. Alltaf má banna fleira og fleira. Alltaf má skipa fyrir um meira og meira. Og alltaf segja talsmenn einstaklingsfrelsisins minna.
Og sífellt verður algengara að svokallað venjulegt fólk fagni því ef frelsi samborgara þeirra er skert, bara ef það er gert í þágu einhvers málefnis sem því sjálfu finnst ágætt. Þegar fólk var spurt um bann við reykingum á skemmtistöðum þá virtist fjölda fólks þykja það raunverulega skipta máli að Honum sjálfum líkaði ekki tóbakslykt í fötunum sínum. Fæstir virtust velta því fyrir sér hvaðan þeim kæmi vald til að skipa eigendum veitingastaða fyrir um hvaða reglur gildi á hans eigin stað. Enda er jafnt og þétt grafið undan einstaklingnum en í staðinn kemur vald múgsins, eða öllu heldur vald þeirra sem tala í nafni múgsins. Kjósum bara um þetta, æpa þeir sem telja að eignarréttur einstaklingsins skipti ekki máli ef ætlaðir stundarhagsmunir múgsins séu annars vegar.
Og við hvert slíkt atriði, þar sem gildismati Gunnars og Héðins er þröngvað upp á Njál, þá minnkar einstaklingurinn. Og þegar einstaklingurinn minnkar þá stækkar í honum nafnlausa ríkiseignin. Og þeir Gunnar og Héðinn, sem létu sér vel líka þegar Njáll var beygður undir gildismat þeirra, munu komast að því að sjálfir minnkuðu þeir líka þegar stigið var á Njál. Næst fer þeirra eigið gildismat, á einhverju öðru sviði, sömu leið.
Þeir sem tala gegn sjálfstæðum einstaklingum en fyrir múgræði, þeim er vitaskuld uppsigað við einkalífið. Minna og minna fær að vera einkamál. Skattar manna eru birtir opinberlega. Eignir manna fá ekki að vera einkamál lengur, því menn ætla að birta opinberlega allt sem snertir „auðlegðarskattinn“. Fyrirtæki verða að skila inn ársreikningi og ríkið hleypir hverjum sem er í hann. Þjóðskráin er sett á netið, þú verður að segja öllum hvar þú átt heima. Hvers vegna ættir þú að mega leyna einhverju af þessu? Þú sjálfur ert ekki neitt, þú ert bara einn af maurum ríkisins og mátt þakka fyrir það. Já og borgaðu tónlistarhúsið og farðu svo inn að hlusta á Víðsjá. Þar er einmitt að byrja pistill um níumenningana sem þú hefðir gott af að fylgjast með.
Þingmennirnir sem þú kaust til að reyna að berjast fyrir því sem eftir er af einstaklingsfrelsi í landinu, þeir eru hættir að þora það. Nú sinna þeir fyrst og fremst ísköldu hagsmunamati. Vel á minnst, þú og börnin þín eigið að borga einkaskuldir sem ykkur koma ekki við, því annars kemst Össur Skarphéðinsson kannski ekki í Evrópusambandið.