Fimmtudagur 10. mars 2011

69. tbl. 15. árg.
Enn hefur Steingrímur ekki svarað fyrirspurnum um kostnað við störf samninganefndar.

R íkisstjórnin segist ekki munu efna til kynningar á efnisatriðum Icesave-málsins vegna komandi atkvæðagreðslu. Á Alþingi bætti Ögmundur Jónasson því við, en málið myndi heyra undir hann, að ekki væri til nein hlutlaus stofnun á Íslandi sem mætti fela það verkefni að útbúa hlutlaust kynningarefni. Það var mjög fróðlegt að hvorki Ríkisútvarpið né Háskóli Íslands, svo dæmi séu tekin, sáu ástæðu til að andmæla því, og það hafa hvorki aðrir þingmenn né ráðherrar gert heldur.

En svo vaknar mjög mikilvæg spurning: Getur verið að jafn mikið sé að marka þá yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar, að ríkið muni ekki kynna Icesave-málið, og annað sem frá henni kemur? Einhver stendur að minnsta kosti fyrir því að nokkrir fulltrúar úr „samninganefnd Íslands“ fara nú fund af fundi og tala fyrir samþykkt Icesave-laganna. Tveir hæstaréttarlögmenn sem sátu í nefndinni hafa haldið erindi um Icesave-samninginn á vinnustaðafundum. Hjálparkokkar nefndarinnar fara um sem óháðir fjármálasérfræðingar.

Hver borgar þetta? Mæta hæstaréttarlögmennirnir frítt á fundina? Mættu þeir um daginn frítt á langan blaðamannafund í fjármálaráðuneytinu þar sem Lárus Blöndal skýrði eins og véfrétt frá því að hann teldi væntanlegar heimtur í bú Landsbankans hafa aukist um fjörtíu milljarða eða svo? Og ef hæstaréttarlögmennirnir mæta ekki frítt á fundi á miðjum vinnudegi, hver borgar þá fyrir viðvikið?

Greint hefur verið frá því að fjármálaráðuneytið hafi enn ekki svarað fyrirspurnum fjölmiðla um það hvað samninganefndarmennirnir hafi fengið greitt fyrir vinnu sína á meðan á samningaviðræðum stóð. Þó er það svo að varla ætti að taka einn dag að afla þeirra upplýsinga, ef menn vildu veita þær. Eru menn að draga svörin svo á langinn, að þeir geti falið greiðslur til nefndarmanna, eftir að samningaviðræðum er lokið, í einni heildartölu sem ekki verði sundurliðuð? Getur verið að ekki megi nefna neina heildartölu nú, því hún sé alltaf að hækka?

  • Hvernig stendur á því að fjölmiðlar ganga ekki ríkar eftir því að fá strax svör við lykilspurningum í málinu:
  • Hvað hefur hver og einn samninganefndarmaður fengið greitt fyrir vinnu sína fyrir fjármálaráðuneytið?
  • Hvenær hætti hver og einn samninganefndarmaður að þiggja greiðslur?
  • Hafa einhverjir samninganefndarmenn fengið greiðslur fyrir vinnu, eftir að samningur var gerður, eða munu fá slíkar greiðslur?
  • Hvernig stendur á að fyrirspurnum um málið hefur enn ekki verið svarað? Hvenær bárust þær?
  • Þetta eru spurningar sem fréttamenn hljóta að leita svara við, þegar í stað.

Annað er mjög athyglisvert. Nýlega var lögð fram fyrirspurn á Alþingi um hver kostnaður hafi verið við störf „samninganefndarinnar“. Fyrirspurninni er beint til Steingríms J. Sigfússonar fjármálaráðherra. Og hver spyr? Jú, Björn Valur Gíslason varaformaður fjárlaganefndar og nánasti bandamaður Steingríms. Ætli það geti verið að tilgangur fyrirspurnarinnar sé, að gera auðveldara að draga fjölmiðla á svörum? Að menn hafi viljað eiga þann möguleika að svara ábúðarmiklir að ráðherrann hafi nú fengið fyrirspurn um málið á Alþingi og vitaskuld verði hinu háa Alþingi svarað á undan fjölmiðlamönnum? Og þannig verði tíminn látinn líða?

Og að sjálfsögðu biður Björn Valur ekki um neina sundurliðun og spyr ekki heldur þeirrar lykilspurningar hvenær vinnu nefndarmannanna hafi lokið fyrir fjármálaráðuneytið.