Miðvikudagur 9. mars 2011

68. tbl. 15. árg.

F jölmiðlar leituðu að vonum til fjármálaráðherra í gær þegar fréttir bárust af launakjörum tveggja banka sem ríkið á hlut í. Guðrún Johnsen fulltrúi í stjórn Arion banka hafði þá um daginn reynt að færa rök fyrir þeim kjörum sem bankastjórinn á þeim bæ nýtur. Það gekk nú svona og svona.  Fjármálaráðherra skýrði þá frá því að ef menn myndu sjá ofurlaun á Íslandi yrði „tekið á því“ og þá væntanlega með skattlagningu. Skattar eru ekki afturvirkir þótt auðvitað ekki megi útilokað að núverandi þingmeirihluta tækist að gera þá það. En að því gefnu að skattar verði ekki almennt gerðir afturvirkir, hvernig ætlar Steingrímur þá að taka af ofurlaunum ef hann fréttir af þeim?

Allt er þetta tal Steingríms og Jóhönnu Sigurðardóttur um „ofurlaun“ bara hnus út í loftið ef þau fylgja því ekki eftir með breytingum á skattalöggjöfinni sem „tekur á því“ ef menn fá greidd „ofurlaun“. Það mætti hugsa sér að nýta tillögu frá ýmsum þingmönnum stjórnarflokkanna sem nefnt hafa 70 – 80% skatt á tekjur yfir ákveðnum mörkum.

Allir vita hins vegar hvaða áhrif slík skattlagning hefði. Þeir sem ættu þess kost að starfa annars staðar fyrir „ofurlaun“ myndu einfaldlega gera það. Eftirsóttir læknar til dæmis. Þeir sem eftir sætu myndu ekki hafa nokkurn áhuga á því að drífa áfram rekstur í von um góðar tekjur. Þær færu hvort eð er í skattinn.

Þær breytingar sem ríkisstjórnin hefur nú þegar gert á skattkerfinu eins og auðlegðarskattur, þrepaskiptur og marghækkaður tekjuskattur einstaklinga, hærri virðisaukaskattur, hækkað tryggingagjald á laun, auk hækkana á tekjuskatti fyrirtækja og fjármagnstekjuskatti hafa vafalítið flæmt fjölda vel launaðra manna frá landinu.

Á róðurinn um að „ljúka“ þurfi Icesave-málinu með því að fallast á allar ólögvarðar kröfur Breta og Hollendinga heyrist enn. Það er auðvitað nýstárlegur skilningur að máli ljúki þegar menn ábyrgjast óútfylltan víxil, eiga eftir að komast að því hvaða fjárhæð verður rituð á hann og svo finna peninga til að greiða skuldina. Og eins og komið hefur fram er með Icesave III ekki skotið loku fyrir að Íslendingar verði dregnir fyrir dóm. Málinu lýkur því aðeins fyrir Breta og Hollendinga þegar þeir fá víxilinn uppáskrifaðan á Íslandi og fráleitar kröfur sínar leiddar í lög.