Mánudagur 7. mars 2011

66. tbl. 15. árg.

Í

Ýmsir þingmenn og ráðherrar Samfylkingarinnar veðjuðu á gott gengi íslensku krónunnar og tóku erlend lán til íbúðarkaupa fyrir bankahrunið. Nú vilja þeir að skattgreiðendur taki slíka gengisáhættu með Icesave III.

nóvember 2009 fengu fjölmiðlar skyndilega áhuga á persónulegum skuldum alþingismanna. Fram að því höfðu fjölmiðlar eingöngu talið tekjur og eignir fólks fréttamat en aldrei spurt um skuldir. Enda kom á daginn að stóru tíðindin úr bankahruninu voru gríðarleg skuldsetning ákveðinna einstaklinga og ýmissa félaga þeirra. Þessi óvænti áhugi fjölmiðla í nóvember 2009 leiddi í ljós að nokkrir þingmenn höfðu á undanförnum árum fjármagnað húsnæðiskaup sín með lánum í erlendri mynt.

Flestir þessara myntkörfuþingmanna voru úr Samfylkingunni. Þar af voru tveir ráðherrar.

Þeir höfðu þó, eins og Samfylkingin í heild sinni, talað óhikað um það árum saman að íslenska krónan væri ónýtur gjaldmiðill. Sérstaklega var að nefnt til sögunnar að krónan væri óstöðug. Hvorki heimili né atvinnulíf gætu búið við slíka óvissu.

Engu að síður ákváðu þessir þingmenn Samfylkingarinnar að setja allt traust sitt á krónuna með því að fjármagna kaup á innlendum eignum með erlendum lánum. Þeir tóku stöðu með krónunni í sínum persónulegu fjármálum. Þeir veðjuðu á styrk hennar gagnvart erlendum myntum. Ekki er vitað til þess að þingmenn og ráðherrar Samfylkingarinnar hafi haft laun í erlendri mynt á þessum tíma sem gæti skýrt þessa hegðun.

Það er vart hægt að sýna gjaldmiðli lands meiri virðingu og traust en að taka erlend lán til að kaupa lóðarskika í landi gjaldmiðilsins og byggja hús á honum. Þeir sem kaupa tæki og tól fyrir erlent lánsfé eiga þó þann kost að selja dótið aftur úr landi fyrir erlenda mynt en lóð og hús verða varla flutt úr landi.

Þetta er rifjað upp hér vegna þess að nú ætla þingmenn Samfylkingarinnar ekki aðeins að veðja á styrk og stöðuleika íslensku krónunnar í eigin fjármálum heldur bjóða íslenskum skattgreiðendum upp á stöðutöku í þrotabúi Landsbankans. Tekjur ríkissjóðs Íslands eru í íslenskum krónum en stöðutakan í þrotabúinu verður að mestu leyti í erlendri mynt. Þrotabúið sem um ræðir var nýlega metið á 1.175.000.000.000 króna og hafði bæði heildarmatið og einstakir liðir innan þess skoppað til um tugi milljarða króna frá matinu þar á undan.

Og hver eru svo helstu rökin fyrir því að taka slíka áhættu? Jú ríkissjóði liggur á að komast á alþjóðlegan skuldabréfamarkað. Það er alveg að opnast glufa fyrir fjármálaráðherrann til að taka meiri erlend lán…