Helgarsprokið 6. mars 2011

65. tbl. 15. árg.

Í dag er eitt árið liðið frá því að yfirgnæfandi meirihluti kosningabærra Íslendinga hélt baráttuglaður á kjörstað og hafnaði þeim samningi sem stjórnvöld höfðu, með mikilli velþóknun Samtaka atvinnulífsins, Alþýðusambandsins og halarófu prófessora, gert við Breta og Hollendinga um að Íslendingar gengjust undir ólögvarðar kröfur þeirra vegna þrots Landsbankans.

En það voru ekki allir Íslendingar sem mættu á kjörstað. Það er rétt að rifja upp atriði sem er mun stærra en ætla mætti af því skilningsleysi sem fréttamenn hafa jafnan sýnt því. Forystumenn ríkisstjórnarflokkanna, Jóhanna Sigurðardóttir formaður Samfylkingarinnar og Steingrímur J. Sigfússon, mættu ekki á kjörstað og fóru ekki í felur með þá ákvörðun sína.

Og hvað er svona stórt atriði við það, stærra en fréttamenn hafa enn skilið? Það er þetta: Steingrímur og Jóhanna héldu því fram að „betra tilboð“ væri „á borðinu“, þótt síðar hafi komið í ljós að það var rangt og rúmir níu mánuðir liðu áður en samið var næst. Ljóst var fyrir kosninguna að landsmenn myndu hafna samkomulaginu. En frá sjónarhóli þeirra, sem vildu halda áfram samningum við Breta og Hollendinga eftir kosninguna, eins og Jóhanna og Steingrímur vildu, þá var alveg augljóst að Ísland hefði af því mikla hagsmuni að kosningaþátttaka yrði sem mest og úrslitin afgerandi. Því afdráttarlausari sem úrslitin yrðu, þeim mun augljósara yrði það Bretum og Hollendingum að þeir yrðu að slá mjög verulega af kröfum sínum ef þeir ættu að fá samning samþykktan í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ráðherrar, sem hefðu í raun hugsað um þjóðarhag, hefðu auðvitað hvatt landa sína til þess að fjölmenna á kjörstað til að sýna fram á samstöðu og styrk.

En það gerðu Steingrímur og Jóhanna ekki. Þau töluðu samfellt um að kosningin væri marklaus og „óþörf“ og áróðursstöðin í Efstaleiti fylgdi strax sömu línu. Meira að segja í sömu vikunni og kosningin fór fram talaði Ríkisútvarpið um að vel kæmi til greina að hætta við hana.

Hvernig gat það verið í þágu Íslands að þátttaka yrði lítil? Slíkt hefði eingöngu sent þau skilaboð að hér væri í raun lítil mótstaða við kúgunina. Því betri kjörsókn, því meira afgerandi nei, því sterkari samningsstaða, ef menn vildu endilega semja.

En ríkisstjórnin reyndi ekki einu sinni að fá þetta vopn í hendur. Hún gerði allt sem hún gat til þess að kosningin yrði ekki þannig að hún gæti nýst í deilunni. Einhvern tíma kemur að því að fréttamenn átta sig á þessu.

Hver ætli sé skýringin á þessu? Ein skýring, sem ekki er ósennileg, er sú að þeir sem stýra ríkisstjórninni hafa í raun engan áhuga á að berjast fyrir íslenskum hagsmunum í málinu. Þeir vilja einfaldlega „koma því frá“, svo ekki sé hætta á að það tefji fyrir umsókn þeirra um inngöngu í Evrópusambandið. Þeir myndu skrifa upp á hvað sem er, ef þeir bara héldu að þeir kæmu því í gegnum þjóðaratkvæði. Þess vegna var í síðustu viðræðum áherslan ekki á málið sjálft heldur einfaldlega að ná forystu Sjálfstæðisflokksins um borð. Því með hana innanborðs með stjórnarliðinu myndi forseti Íslands líklega ekki þora að neita að skrifa undir lögin, því þau ættu að geta slampast í gegn af því að nægilega margir sjálfstæðismenn kynnu ekki við að skilja forystumennina eftir með allt niður um sig með stjórnarherrunum.

En stjórnarherrarnir hafa ekki alltaf reiknað rétt í Icesave-málinu. Í síðasta mánuði misreiknuðu þeir forsetann en í næsta mánuði kemur í ljós hvort þeir reiknuðu almenna sjálfstæðismenn rétt. Það verður óskemmtilegt fyrir almenna sjálfstæðismenn ef þeir eiga eftir að reynast Íslandi verr en Ólafur Ragnar Grímsson.