Þriðjudagur 22. febrúar 2011

53. tbl. 15. árg.

S vo er reynt að telja fólki trú um að aðlögunin að ESB sé ekki hafin.

Hvernig hljómar þetta þá?

Stórmáli er troðið í gegnum þjóðþing með atbeina og undir hótunum frá Brussel. Með harmkvælum fæst þó þjóðaratkvæðagreiðsla um málið. Í henni er málið kolfellt. Rétt rúmu ári síðar er búið að breyta málinu örlítið þótt efnislega sé það hið sama og það komið aftur frá þjóðþinginu í aðra þjóðaratkvæðagreiðslu með von um að almenningur sjái nú að sér.

Kunnuglega, ekki satt?

Svo langt er aðlögun Íslands að ESB komin að landið er jafnvel lagað að þeirri lýðræðishefð frá Brussel að kosið skuli um mál, aftur og aftur, þar til „rétt“ niðurstaða er fengin.

Maðurinn sem helst hefur gengið hefur erinda ESB í málinu og reynt að koma í veg fyrir þjóðaratkvæðagreiðslur um málið sat í Kastljósi Ríkissjónvarpsins í gær. Þar upplýsti hann að hann og fleiri íslenskir stjórnmálamenn hefðu á fundi í Hollandi gefið hinum svonefndu viðsemjendum Íslendinga í Icesave málinu ádrátt um að málið færi ekki í þjóðaratkvæðagreiðslu. Geta formenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks, sem voru á þessum fundi, staðfest slíkt hafi verið gefið í skyn við „viðsemjendur“ Íslendinga?

E ftir hrun bankanna var Íslendingum sagt að þeir yrðu að fara „finnsku leiðina“ til að vinna bug á vandanum. Finnar hefðu gert hitt og þetta eftir hrun Sovétríkjanna sem væri til eftirbreytni, ekki síst gengið í Evrópusambandið og tekið upp evru. En nú berast fréttir af því að atvinnuleysi í Finnlandi sé 8,2%. Það er meira en hér á landi tveimur árum eftir að fjármálakerfi Íslendinga gufaði upp á einni nóttu.