M erkilega algengt er að menn segist vilja eitt, en geri svo þveröfugt. Hvað á til dæmis að segja um þá, sem segjast umfram allt vilja „klára Icesave“, en reynast svo vilja að Íslendingar taki þar á sig skuldir, sem þeir bera ekki í dag, og sitji með þær á herðunum, hugsanlega í rúmlega þrjátíu ár?
Ef menn vilja í alvöru „klára Icesave“, þá ættu þeir að segja Bretum og Hollendingum sem satt er, að Íslendingar skuldi þeim ekki neitt og ráðleggja þeim að fara annað með kvabb sitt.
Eitt er það sem ekki mun klárast alveg á næstunni. Það er Icesave-áróðurinn. Vissulega hafa ríkisstjórnin, Ríkisútvarpið, Fréttablaðið, Samtök atvinnulífsins, Alþýðusamfylkingin og aðrar hliðarstofnanir talað stíft fyrir kröfum Breta og Hollendinga undanfarin ár. En nú verður allt sett á fulla ferð. Ef menn halda að viðtalaflóð Spegilsins við Indriða H. Þorláksson, Vilhjálm Egilsson, Þórólf Matthíasson, Gylfa Arnbjörnsson og Stefán Ólafsson hafi hingað til verið mikið, þá mættu þeir rifja upp fleyg orð fóstbræðranna Ólafs Ragnars og Össurar, og hefjast á You aint…
Þannig munu næstu vikur verða. Nýir og nýir spekingar verða leiddir fram og látnir þylja heimsendaspárnar sem farið var með fyrir Icesave I og Icesave II. Þegar Ísland átti að verða Kúba norðursins ef Icesave yrði ekki „klárað“ fyrir einhvern tiltekinn dag í byrjun september 2009. Þegar Steingrímur J. Sigfússon vildi ekki „hugsa þá hugsun til enda“ ef Icesave kláraðist ekki fyrir helgi, sem var í fyrrihluta desember 2009. Og svo framvegis og svo framvegis.
Smjörþefurinn fannst um helgina þegar Ríkisútvarpið hamraði á því að formaður samninganefndar Íslands væri hlynntur samningnum. Það þótti Ríkisútvarpinu gríðarleg tíðindi sem settu málið allt í nýtt ljós. Ekki kæmi á óvart ef fleiri samninganefndarmenn birtust skyndilega í viðtölum og kynntu þar sitt hlutlausa og faglega mat að þeirra eigin samningur væri bara einmitt málið.
Svona verður þetta í nokkrar vikur, þar til stjórnvöld telja almenning nægilega marineraðan í úlfsúlfar-legi til að hleypa megi honum á kjörstað.