N ú telja margir að umræðum um Icesave sé loks lokið. Nú getum við loks snúið okkur að einhverju öðru, segja menn. Hvað ætli það sé? Jú stjórnmálastéttin fer að máta sig við ESB á meðan almennir borgarar vinna fyrir Icesave-greiðslunum til Breta og Hollendinga.
Það er næsta ótrúlegt að Alþingi hafi samþykkt að greiða Bretum og Hollendingum nú þegar 26 milljarða króna í uppsafnaða vexti af fjármunum sem Bretar og Hollendingar greiddu eigin þegnum til að hindra áhlaup á eigin banka. Eitt stykki íslenskt menntakerfi tekið úr tómum ríkissjóði.
Tveir menn hafa að undanförnu skrifað skýrt og skorinort á Pressuna um helstu atriði Icesave málsins, í nokkrum stuttum greinum hvor. Þetta eru þeir Jón Helgi Egilsson verkfræðingur og hagfræðingur og Ólafur Margeirsson hagfræðingur.
Í einni greina sinn bar Ólafur vaxtagjöld ríkisjóða Íslands og Argentínu saman. Árið 2001 fóru vaxtagjöld ríkissjóðs Argentínu í 20% af landsframleiðslu. Skömmu síðar varð hann gjaldþrota. Ríkissjóður Íslands er kominn vel yfir 20% eins og meðfylgjandi graf frá Ólafi sýnir.
Þetta er sannkölluð hryllingsmynd. Ólafur telur, sem von er, að ríkissjóður Íslands megi megi alls ekki við frekari skuldsetningu, líkt og þeirri sem fylgir Icesave.