F
![]() |
Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins á fjölmennum fundi um Icesave í Valhöll í gær. |
rægasta ljósmynd íslenskrar stjórnmálasögu síðari hluta tuttugustu aldar var tekin á landsfundi Sjálfstæðisflokksins árið 1981. Flokkurinn sat í stjórnarandstöðu en varaformaður hans var forsætisráðherra. Langvígar persónulegar deilur höfðu sett allt flokksstarf í uppnám árum saman. Flokkurinn var klofinn niður í rót. Þegar myndin var tekin hafði Geir Hallgrímsson nýlokið ræðu sinni, þar sem hann réðst mjög harkalega að stjórnarsinnum. Myndin sýnir áheyrendur í troðfullu Háskólabíói sem rísa á fætur til að hylla Geir, allir nema þrír. Gunnar Thoroddsen, Vala kona hans og Aðalbjörg Helga kona Pálma Jónssonar sitja sem fastast þegar allir aðrir standa, og myndin þykir segja margra ára sögu á einu andartaki. Meira að segja Pálmi, ráðherra í stjórn Gunnars, spratt á fætur, þótt hann sæti við hlið Völu og þar næst Gunnari. Eftir klukkutíma skammir Geirs um ríkisstjórnina risu allir á fætur og klöppuðu, meira að segja tveir af þremur ráðherrum Sjálfstæðisflokksins í stjórninni. Svo óendanlega sterk er hefðin á fundum Sjálfstæðisflokksins, að vel er klappað fyrir formanni hans og ætíð staðið á fætur þegar hann hefur lokið máli sínu. Þetta er ekki gert af hugsunarlausri lotningu heldur er þetta áratuga siðvenja, rétt eins og ráðherra og stjórnarandstöðuþingmaður ávarpa hvorn annan sem hæstvirtan og háttvirtan, án þess að í því felist annað og meira en háttvísi í umgengni.
Svona hefur þetta ætíð verið og það vita allir sem fjalla um stjórnmál á Íslandi. Í gær gerðist það hins vegar að fjölmiðar lögðu mikla áherslu á að klappað hefði verið fyrir Bjarna Benediktssyni á fundi í Valhöll. „Margir klöppuðu fyrir Bjarna og sýndu honum þannig stuðning í verki, sagði í einni af furðufréttum netútgáfu Morgunblaðsins af fundinum, þar sem sífellt var talað um að klappað hefði verið fyrir Bjarna en fátt sagt um það sem aðrir fundarmenn höfðu að segja. En þó var í þessu falið sannleikskorn, því þótt margir hafi klappað fyrir Bjarna var drjúgur hluti fundarmanna sem gerði það ekki og það gerist ekki á hverjum degi að sjálfstæðismenn standi með krosslagðar hendur á þegar formaður flokksins lýkur máli sínu.
„En nú eru fjölmiðlar og álitsgjafar flestir ákafir í varðstöðunni um formann Sjálfstæðisflokksins, og fyrir tilviljun þá er það einmitt í því máli þegar hann gengur til liðs við vinstristjórnina um að koma hennar erfiðasta máli í gegnum þingið og það þvert gegn skýrri ályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins um málið.“ |
Ef fréttamenn nútímans hefðu verið staddir í Háskólabíói árið 1981 þá hefðu þeir líklega slegið því upp að klofningur Sjálfstæðisflokksins væri greinilega tóm vitleysa. Allir nema þrír styddu formanninn. Svo hefðu þeir tekið viðtöl við tvo vopnabræður Geirs sem hefðu staðfest það sem klappið hefði auðvitað sýnt og sannað. Meira hefðu þeir ekki talið um málið að segja.
Það er reyndar stórmerkilegt hvernig fjölmiðlar hafa látið síðustu daga. Árum saman hafa álitsgjafar og ýmsir fjölmiðlamenn, sem eiga það flestir sameiginlegt að hafa mikinn áhuga á málefnum Sjálfstæðisflokksins án þess að hafa nokkurn tíma starfað þar sjálfir, talað langt mál um að í Sjálfstæðisflokknum væru foringjarnir aldrei gagnrýndir. Aldrei virtist þessum álitsgjöfum detta í hug, að vera mætti að þorra flokksmanna þætti foringjarnir fylgja stefnu flokksins í stærstu málum, eins og mögulegt væri í ríkisstjórnarsamstarfi, og því minni ástæða en ella til uppreisnar. En nú er hins vegar uppi gríðarleg gagnrýni á forystu Sjálfstæðisflokksins og hvernig haga fjölmiðlar sér þá? Jú, eins og gamaldags flokksfjölmiðlar. Áherslan er á að gagnrýnin sé lítil en klappið mikið. Rætt er við tvo fundarmenn úr Valhöll og það eru þá gamlir formenn sem mættir eru til að hjálpa þeim nýja að þagga niður í andstöðunni. Ekki rætt við nokkurn annan fundarmann og mátti fréttamönnum þó vera ljóst af umræðum á fundinum að þar var gríðarlegur fjöldi manna mjög ósáttur við afstöðu flokksforystunnar.
Ef Vefþjóðviljinn man rétt þá tóku tveir fundarmenn til máls til stuðnings Bjarna, en allir aðrir sem töluðu voru á öðru máli. Auðheyrt var á sem til máls tóku að þeir voru undrandi á ákvörðun forystunnar. Margt kom til. Þeir töldu að mjög ákveðnum ályktunum landsfundar flokksins, um að hafna bæri öllum „löglausum kröfum“ Breta og Hollendinga, væri gefið langt nef. Þeir töldu baki snúið við því grunnstefi sjálfstæðisstefnunnar að einkafyrirtæki störfuðu án ríkisábyrgðar. Þeim þótti látið undan kúgunum Breta og Hollendinga og þeir svo verðlaunaðir fyrir skepnuskap gagnvart Íslendingum. Og að með samningunum tæki ríkissjóður nokkur hundruð milljarða króna stöðu í erlendri mynt í eignum þrotabús Landsbankans – eignum sem menn hafa mjög nýlega brennt sig á að ofmeta.
En að þessu sinni eru gagnrýnendurnir ekki hetjur í augum fjölmiðlamanna. Þegar fjöldi sjálfstæðisfélaga, alls staðar af á landinu, sendir frá sér harðorðar ályktanir gegn afstöðu forystu flokksins, þá eru áherslur álitsgjafa og fréttamanna á að mikið hafi verið klappað. Sérstaklega virðist Stöð 2 vera áfram um að draga sem mest úr því að nokkur ólga sé í Sjálfstæðisflokknum, og er það afar athyglisvert í ljósi sögunnar. Stöðin hefur, allt frá því hin nýja afstaða forystu Sjálfstæðisflokksins kom í ljós, flutt af því samfelldar fréttir hversu andstaðan sé lítil, úrsagnir fáar en klappið hávært. Raunar mætti umorða þennan fréttaflokk Stöðvar 2 með einföldum hætti: Þar sem er mikill reykur, þar er sko alls enginn eldur.
Fyrrverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins skrifaði blaðagrein í gær og sagði þar að hið „ískalda hagsmunamat“ Bjarna Benediktssonar væri langt „undir frostmarki mannlegs siðferðis“. Um framgöngu fulltrúa Sjálfstæðisflokksins í fjárlaganefnd sagði hann, að „leitun [væri] að því að íslensk stjórnmál hefðu lagst lægra“. Hefur einhver ljósvakamiðill sagt frá því? Nei, ekki einn einasti. En þeir hafa tuggið, eins og heimsfrétt, að klappað hafi verið í Valhöll þegar formaður Sjálfstæðisflokksins lauk máli sínu.
Hvernig ætli fjölmiðlar hefðu látið ef annað mál hefði átt í hlut, eða jafnvel einhver annar formaður Sjálfstæðisflokksins? Ef fyrrverandi ráðherra Sjálfstæðisflokksins hefði sagt um einhvern annan formann flokksins, að framganga hans væri „talsvert undir frostmarki venjulegs siðferðis“, hvernig hefðu fjölmiðar þá látið? Halda menn að um þau orð hefði ríkt alger þögn, en á sama tíma þulið í fréttatímum að formaðurinn hefði fengið mikið klapp? Nei, allir vita að þannig hefði það ekki verið. En nú eru fjölmiðlar og álitsgjafar flestir ákafir í varðstöðunni um formann Sjálfstæðisflokksins, og fyrir tilviljun þá er það einmitt í því máli þegar hann gengur til liðs við vinstristjórnina um að koma hennar erfiðasta máli í gegnum þingið og það þvert gegn skýrri ályktun landsfundar Sjálfstæðisflokksins um málið. Bersýnilegar mótsagnir í máli formannsins vekja lítinn áhuga þeirra og er þetta allt hið merkilegasta í ljósi þess hvernig margir fjölmiðlamenn lögðu áður mikið á sig til að reyna að hanka forystumenn Sjálfstæðisflokksins á einhverju.