S vokallaðir aðilar vinnumarkaðarins óska nú eftir því að ríkisstjórnin leggi eitthvað af mörkum til að „greiða fyrir gerð kjarasamninga“. Auðvitað má oft segja að vinnuveitendur og launþegar eigi að semja án þess að blanda ríkisstjórninni í málið, en því verður þó varla neitað að óvenju mikil ástæða er til þess nú að snúa sér að stjórnvöldum áður en menn binda sig með langtímasamningi.
Ríkisstjórnin hefur verið til vandræða á ótal sviðum, eins og flestir vita. Atvinnulífið horfir upp á að ríkisstjórnin vill endilega ráðast til atlögu gegn sjávarútveginum, mikilvægustu atvinnugrein landsins og ríkisstjórnin þvælist fyrir orkunýtingu með ýmsum ráðum. Ef að ríkisstjórnin stendur við hótanir sínar í garð sjávarútvegarins mun það hafa í för með sér stórfellt áfall fyrir atvinnulífið og verulega minni verðmætasköpun í landinu, með almennri lífskjaraskerðingu. Í landinu eru gjaldeyrishöft, sem enginn fær að vita hvenær verði aflögð og ekki verður gert á næstu árum ef Icesave-ánauðin verður lögð á íslenska skattgreiðendur.
Og ríkisstjórnin hefur ekki síður vegið að hagsmunum launafólks. Með sífellt hækkandi sköttum, bæði á tekjur og seldar vörur og þjónustu í landinu, með auknu gjaldi á ýmsar vörutegundir eins og áfengi og eldsneyti og svo framvegis, hefur ríkisstjórnin dregið í ríkissjóð mun stærri hlut af ráðstöfunartekjum venjulegs fólks en áður.
Það er svo dæmigert að fyrirspurnum og óskum að þessu leyti svara stjórnvöld með þjósti. Jóhanna Sigurðardóttir segir að atvinnurekendur taki samningsgerð „í gíslingu“ ef þeir semji ekki án þess að fá tryggingu fyrir því að ekki verði ráðist frekar á sjávarútveginn. Hugmynd Jóhönnu er því að menn semji til næstu ára, en svo komi hún og ríkisstjórnin og kippi grundvellinum undan öllu.
Það er því að mörgu leyti skiljanlegt að vinnuveitendur og launþegar vilji vita hvað ríkisstjórnin ætlar næst að gera þeim til gleði, og semji ekki fyrr en það hefur verið fengið á hreint. Verður þeirri atvinnugrein, sem dregur mestan erlendan gjaldeyri inn í landið, greitt þungt högg? Verður mjög dregið úr hagkvæmni í mikilvægustu atvinnugrein landsins? Verður komið í veg fyrir nýja atvinnuuppbyggingu sem myndi veita fjölda fyrirtækja verkefni og fólki atvinnu? Verða skattar hækkaðir enn og aftur? Munu hugsanlegar kjarabætur kannski renna beint í ríkissjóð með auknum sköttum?
Í fréttum um helgina kom hins vegar fram, að forysta verkalýðshreyfingarinnar hugsar ekki mikið um skattana. Nei, kröfur hennar til stjórnvalda snúast ekki hvað síst um „auknar bætur“. Verkalýðsforstjórarnir hafa því ekkert við það að athuga að verðmæti í landinu séu í sívaxandi mæli dregin undir stjórnvöld sem síðan útdeili „bótum“ til fólks, eftir því sem stjórnvöldum þóknast á hverjum tíma. Áhrif fólks á eigið líf minnka en áhrif stjórnvalda aukast. Þetta verður niðurgreitt, þetta verður skattlagt. Sá sem fær svona iðnaðarmann á þessum tíma, hann fær skattaafslátt. Hinn sem kaupir þessa vöru skal borga meira. Sá sem vinnur langa eftirvinnu til að framfleyta sér og sínum, skattar hans verða hækkaðir. Hluti af hækkuninni rennur svo til næsta manns í formi „aukinna bóta“. Kannski fær bótaþeginn arf. Erfðafjárskatturinn var hækkaður. Peningurinn sem ríkið þannig nær fer svo í bætur einhvers annars.
Alltaf á að auka vasapeningaþjóðfélagið. Alls staðar á hið opinbera að koma. Foreldrar fá bætur fyrir að eignast börn. Þeir fara í launað frí, á kostnað skattgreiðenda. Sumir foreldrar fá „barnabætur“ þar til krakkarnir ná ákveðnum aldri, aðrir foreldrar fá ekki barnabætur en borga aukna skatta til að borga bæturnar til hinna. Á nær öllum sviðum eiga menn „rétt“ á aðstoð og alltaf eru skattarnir hækkaðir til að hægt sé að borga það sem hinir eiga „rétt“ á. Aldrei virðist mega lækka skatta og leyfa fólki sjálfu að ráða því í hvað peningarnir fara. Byggðir eru tónleikasalir og íþróttavellir í staðinn fyrir að lækka skatta og útsvar og leyfa fólki að ráða hvort það skráir sig í íþróttafélög eða styrkir menningarstarf sjálfviljugt. Af hverju má fólk ekki ráða þessu? Af hverju koma stjórnmálamenn og taka stóran hluta af launum fólks sem er að reyna að sjá fyrir sér og sínum, og nota þá svo til að reisa yfirbyggða sundlaug? Hvers vegna segja ekki fleiri hátt og skýrt „nei“ við þessu?
Það er meðal annars vegna vasapeningaþjóðfélagsins. Á sífellt fleiri sviðum treður hið opinbera sér. Menn venjast því að vera skattlagðir af þunga og telja tíma sínum betur varið í að reyna að ná vænni flís til sinna eigin áhugamála, í staðinn fyrir að standa í hinni árangurslitlu baráttu fyrir skattalækkunum. Þeir stjórnmálamenn sem mest völd hafa í dag, þeir vilja ná sem mestu úr vösum borgaranna og undir ráðuneyti sín og sveitarfélög. Þeir vilja „verja velferðarkerfið“ en ekki borgarana.
Gegn þessu þarf að berjast. Með því að halda stíft áfram baráttunni fyrir lægri sköttum og fyrir því að ekki verði aukið á vasapeningaþjóðfélagið og opinber útgjöld, bæði sveitarfélaga og ríkis, skorin niður. Það þarf til dæmis ekki fleiri íþróttavelli fyrir nauðungargjöld. Ef að sú íþróttaaðstaða sem er í boði um þessar mundir er ekki nægileg, þá hljóta íþróttaáhugamenn að geta borgað viðbótina úr eigin vasa.