Föstudagur 14. janúar 2011

14. tbl. 15. árg.

Í viðskiptablaði Morgunblaðsins var í gær ýtarleg fréttaskýring Þórðar Gunnarssonar blaðamanns um stofnfjáraukningar sparisjóðanna árin 2006 og 2007. Þar standa meðal annars þessi athyglisverðu orð:

Sparisjóður Mýrasýslu (SPM) var sá sparisjóður sem lenti einna fyrstur allra í alvarlegum vandræðum, að minnsta kosti ef marka má fjölmiðlaumfjöllun mánuði fyrir allsherjarhrunið í október 2008. Strax á fyrri helmingi ársins 2008 tapaði sjóðurinn tæplega fimm milljörðum króna. Á árinu 2007 var stofnfé sjóðsins aukið úr fimm milljónum króna í 505 milljónir króna, en sjóðurinn var að öllu leyti í eigu Borgarbyggðar. SPM skar sig frá öðrum sparisjóðum að því leytinu til að veri opinberri eigu að fullu. SPM lét sitt ekki eftir liggja í fjárfestingum og yfirtökum.

Samkvæmt þessu, þá var það sá sparisjóður, sem skar sig úr í hópi sparisjóða með því að vera að öllu leyti í opinberri eigu, sem fyrstur komst í mikil vandræði. Og hafði ekki dregið af sér við yfirtökur og fjárfestingar.

Sumir halda því ákaft fram, að einkavæðing banka, mörgum árum áður, sé einhver orsök þrots viðskiptabankanna. Þó er það svo, að í öllum vestrænum löndum eru reknir einkabankar. Vildu þessir menn að Ísland byggði fjármálakerfi sitt á ríkisstofnunum? Átti ekki að einkavæða banka? Sumir æpa að rangir menn hafi eignast bankana við einkavæðingu. Þó er það svo, að sá banki sem fyrstur fór í þrot var alls ekki einkavæddur í einmitt þeim einkavæðingum sem áróðursmenn langar svo til að kenna um bankaþrotið. Hlutabréf í bönkum voru keypt og seld á frjálsum markaði. Tugþúsundir Íslendinga skráðu sig fyrir hlutabréfum og seldu þau síðan áfram. Hvað vildu þeir menn gera, sem nú kenna einkavæðingunni um? Átti að banna sumum mönnum að kaupa hlutabréf? Átti að setja lög um hámarkseign manna á hlutabréfum í bönkum? Þegar það var lagt til, við upphaf einkavæðingar, þá fékk sú tillaga engar undirtektir og var helst skýrð með því að með því væri verið að ráðast að glæsilegum viðskiptamönnum og setja þeim stólinn fyrir dyrnar.

Skýringanna á þroti viðskiptabankanna er ekki að leita í einkavæðingu þeirra. Og þeir sem trúa því að opinberar fjármálastofnanir séu betri og varkárari en aðrar, mættu aðeins velta fyrir sér frásögninni af sparisjóðunum. Sparisjóður varfærinna þingeyskra bænda virðist standa keikur, en sparisjóðurinn, sem bæjarstjórnin í Borgarbyggð átti, fór aðra leið.