Mánudagur 3. janúar 2011

3. tbl. 15. árg.

Í sínu skemmtilega áramótaávarpi boðaði Jóhanna Sigurðardóttir, formaður Samfylkingarinnar og Þjóðvaka – hreyfingar fólksins, að á því ári sem nú er hafið skyldu Íslendingar ná sáttum í deilum um auðlindir.

Það er mikil yfirlýsing og gefur góðar vonir, fyrst hún kemur úr þessari átt. Undanfarin ár hafa það nefnilega jafnan verið kratar sem hafa alið á ósætti um auðlindamál og kynnt undir ranghugmyndum um þau. Sátu þeir þó í ríkisstjórn þegar annað mesta framfaraskrefið var stigið við mótun fiskveiðistjórnarlöggjafar landsins, þegar heimilað var frjálst framsal aflaheimilda. Sú regla er lykillinn að hagræðingu og hagkvæmni í greininni, þeirri atvinnugrein sem skilar ótrúlegum verðmætum til „þjóðarbúsins“ ár eftir ár, og er auðvitað ómetanlegt við núverandi aðstæður.

Fyrir upptöku aflamarkskerfisins voru „vandamál sjávarútvegsins“ eitt helsta fréttamál hvers árs. Þegar ofan á önnur vandræði bættist sú staðreynd að skera varð afla niður, því veiðigetan var mun meiri en fiskistofnarnir voru taldir þola til lengdar, var tekin sú skynsamlega og sanngjarna ákvörðun, að leyfa þeim veiðar sem höfðu stundað þær, en ekki hinum sem ekki höfðu gert það. Síðar var svo tekin sú ákvörðun að heimila framsal aflaheimildanna, og þar með tókst að ná fram hagkvæmni og hagræðingu, sem skiptir gríðarlegu máli til að tryggja sem mestan arð af veiðunum.

Svo vel hefur sjávarútvegurinn gengið að vandamálasöngurinn fyrri er horfinn. Í staðinn er kominn reiðisöngurinn í hinum sem ímynda sér að það hafi verið sérstaklega óréttlátt að þeir hafi ekki fengið úthlutað aflaheimildum fyrir aldarfjórðungi. Búið sé að hafa af þeim „frumburðarréttinn“, því auðvitað hefðu þeir ella verið á sjónum dag og nótt. Í staðinn fyrir vandamálin, gengisfellingarnar og sítapandi útgerðir hafa menn fengið blómlega atvinnugrein, gríðarlegar gjaldeyristekjur og bálreiða frambjóðendur til stjórnlagaþings.

Sjávarútvegurinn er ekki byggður á sandi – nema auðvitað hafnargerð stjórnvalda við Landeyjar – eins og sumar aðrar greinar sem haldið er á floti með opinberum stuðningi. Það væri ótrúlega óskynsamlegt að velja einmitt tíma eins og þá sem nú eru, til að grafa undan mikilvægustu atvinnugrein landsins.

Þess vegna er ánægjulegt að formaður Samfylkingarinnar segist nú vilja „sátt um auðlindamál“. Ef hún vill sættir um þau mál þá getur hún stigið stórt skref með því að láta af árásum á sjávarútveginn, þó ekki væri nema rétt á meðan Íslendingar reyna að vinna sig út úr efnahagsörðugleikum, með ákaflega lítilli hjálp stjórnvalda.