Helgarsprokið 2. janúar 2011

2. tbl. 15. árg.

Á árunum fyrir hrun margra stærstu fyrirtækja landsins var sannast sagna afskaplega lítill áhugi á hefðum eða fortíðinni í íslensku atvinnulífi. Fyrirtæki þurftu að skipta um nafn og húsnæði reglulega, helst af því að þau voru að sameinast öðrum eða að klofna. Jafnvel símanúmer gamalgróinna félaga fengu ekki að vera í friði fyrir innantómri breytingastjórnun. Verzlunarráði Íslands, stofnuðu 1917, var skyndilega breytt í Viðskiptaráð Íslands.

Ein afleiðing þessa umróts var að menn glötuðu raunhæfum samanburði við rekstur fyrri ára. Öll samfella hvarf. Í ársreikningi félags er samanburður við fyrri ár afskaplega mikilvægur. Raunhæfur samanburður við fyrri ár minnkar svigrúm manna til að fegra reikninginn með tilfæringum og brellum. Skáldskapur í bókhaldi er erfiður á meðan lykiltölur eru ekki á ferð og flugi vegna sífelldra umbreytinga, uppstokkunar, straumlínulagana, aðlögun að breyttum tímum eða hvaða nöfnum sem snúningunum er annars gefið.

En snúningar af þessu tagi heyra ekki til liðinni tíð. Nú er það ríkið sem hefur tekið upp merkið.

Ráðuneytum og stofnunum er skákað fram og til baka og skipt um nafn á þeim án þess að skiljanlega ástæða eins og hagkvæmari rekstur þeirra sé fyrir hendi. Þegar ríkisstjórnin hefur lokið sér af í þessum efnum, og hvort sem hún lýkur þessu brölti eður ei, verður ekki hlaupið að því á næstu árum að bera rekstur ráðuneyta saman við fyrri ár. Það kemur sér sjálfsagt vel fyrir ríkisstjórnina, svona eins og það kom sér vafalaust vel fyrir einhverja að hringla svo með ýmis fyrirtæki á árunum fyrir hrun að enginn hafði yfirsýn yfir þær breytingar sem hringlið hafði í för með sér.

Áhugamenn um ríkisfjármálin munu eiga bágt með að átta sig á því hvernig rekstur einstakra ráðuneyta er að breytast.

Og ríkisstjórnin telur ekki nóg að taka þessa 2007 snúninga á stjórnarráðinu. Í ár verður reynt að koma stjórnarskránni fyrir kattarnef. Skrá sem tryggt hefur Íslendingum eitt besta stjórnarfar í veraldarsögunni á helst að kasta út í hafsauga. Það er sagt einskis virði að menn hafi fikrað sig áfram í yfir 60 ár við varfærnar breytingar. Þeim mönnum hefur öllum „mistekist að skrifa nýja stjórnarskrá“, svona eins og það hafi alltaf verið talin mikil þörf en ekki bara dilla úr Jóhönnu Sigurðardóttur.