Í dag bætist í Bóksölu Andríkis ein af allra áhugaverðustu bókum ársins. Er óhætt að segja að stórvirki prófessors Þórs Whiteheads, Sovét-Ísland óskalandið, sé mikill happafengur fyrir alla áhugamál um þjóðmál og Íslandssögu tuttugustu aldar. Og hún bregður einnig ljósi á stjórnmál dagsins í dag og stjórnmálaumræður dagsins.
Í bókinni segir Þór Whitehead, af sinni kunnu vandvirkni og lifandi stíl, frá baráttu Kommúnistaflokks Íslands til að koma á Sovét-lýðveldi á Íslandi, en sú saga er meiri og alvarlegri en margir halda. Í þeirri baráttu var beit grófu ofbeldi sem skildi fjölda manna eftir stórslasaðan og sumir báru þess aldrei bætur. Lögreglan var höfð undir í átökum, tugir manna fóru til Moskvu til að læra hernað og undirróðurstarfsemi og Kommúnistaflokkurinn kom sér upp sérstöku bardagaliði til að yfirbuga lögregluna.
Stundum heyrist því fleygt í stjórnmálaumræðu nútímans að „flokkarnir“ séu allir ómögulegir og hafi alltaf verið. Íslensk þjóðmálabarátta hafi verið slagsmál spilltra smáhöfðingja sem hafi viljað komast að kjötkötlunum til að fá innflutningsleyfi fyrir apríkósur. Í því, eins og ótalmörgum öðrum efnum, fara menn villir vega. Það var gríðarlegur munur á íslensku stjórnmálaflokkunum. Á tuttugustu öld var lengi tekist á um örlög landsins, þar sem menn glímdu við þá sem vildu í raun breyta landinu í Sovétlýðveldi. Þar börðust menn um framtíðarheill landsins og nútímamenn sýna ótrúlega grunnhyggni þegar þeir afgreiða þá, sem í raun stóðu vörð um lýðræðislegt þjóðskipulag og sátu undir ótrúlegum árásum vinstrimanna, sem spillta smákónga og úthrópa fullkomlega löglegar aðferðir þeirra í baráttunni sem ógnir og njósnir.
Þór Whitehead er einn af allra fremstu sagnfræðingum Íslands. Lesendur hans undanfarna áratuga þekkja hann af ákaflega mikilli vandvirkni, djúpri þekkingu og lifandi og skemmtilegum ritstíl. Allt eru þetta mjög mikilvægir eiginleikar sagnfræðings sem skrifar bækur til að fræða almenna lesendur. Marga sagnfræðinga vantar einhvern þessa kosta, og suma sennilega þá alla. En það er óhætt að mæla mjög eindregið með þessari stórfróðlegu bók Þórs fyrir alla þá sem hafa snefil af áhuga á sögu lands og þjóðar.
Sovét-Ísland óskalandið fæst í Bóksölu Andríkis og kostar þar aðeins 5.500 krónur og í þeirri fjárhæð er innifalin sending á hvaða heimilisfang sem er á Íslandi. Við erlendar pantanir bætist kr. 600 sendingargjald.