S tundum mætti ætla af umræðunni og ekki síst hvernig Steingrímur J. Sigfússon fjármálaráðherra talar ogað Ísland sé eina landið sem fengið hefur að kenna á efnahagskreppu undanfarin ár. Þó er ekki ýkja langt yfir til Írlands eða Bretlands þar sem finna má flest þeirra vandamála sem Íslendingar glíma við. Í flestum löndum Evrópu hefur bönkum verið bjargað fyrir horn með fé skattborgarans. Myntsamstarf Evrópuþjóða nötrar enn og skelfur.
Syðstu lönd Evrópusambandsins eru í miklum vanda. José Maria Aznar fyrrverandi forsætisráðherra Spánar skrifaði um stöðuna þar í landi í The Wall Street Journal í fyrradag. Hann segir að staðan sé nöturleg. Atvinnuleysi sé yfir 20% og þar af 43% meðal ungs fólks. Hann segir að menn spyrji sig ótt og títt hvernig það geti staðist að ríki sem var talið „efnahagsundur“ álfunnar fyrir nokkrum árum skuli vera komið í slíks klemmu. Hann segir að þegar Spánverjar hafi tekið upp evruna hafi menn hætt að gæta aðhalds í ríkisfjármálum. Stjórnvöld hafi gripið til sértækra aðgerða í efnahagslífinu og látið almennar leikreglur lönd og leið. Ríkisútgjöld hafi aukist stjórnlaust og skattar verið hækkaðir.
Nauðsynlegur þáttur í þeim breytingum sem þurfa að verða í spænskum stjórnmálum er að menn horfist í augu við að ríkið verður að takmarka efnahagslegt og félagslegt hlutverk sitt. Auka þarf frelsi og opna ný svið fyrir framtaki einstaklinganna. Taka þarf til í ríkisrekstrinum, leggja niður skrifræðisbákn og aðrar opinberar stofnanir og laga opinber útgjöld að veruleikanum. Spánverjar geta ekki slegið því lengur á frest að endurskipuleggja velferðarkerfið. Endurreisa þarf þegar í stað þjóðfélag tækifæra fyrir alla. |
Vinstri menn hafa farið með völdin á Spáni undanfarin sex ár, Spánn er í Evrópusambandinu og með ástkæru evruna.