Laugardagur 11. desember 2010

345. tbl. 14. árg.
So Iceland and the UK traded blows yesterday. That isn’t strictly accurate – this is the big clunking fist of Gordon Brown versus the dignified defensive stance of Geir Haarde, Icelandic prime minister.
– Tom Braithwaite fréttaritari Financial Times skrifaði frá Reykjavík 10. október 2008.

N ú er því haldið fram að þegar eignir úr þrotabúi Landsbankans hafa verið seldar muni þær duga til að bæta breskum og hollenskum stjórnvöldum það sem þau lögðu út haustið 2008 til að greiða hverjum Icesave sparifjáreiganda allt að 23 þúsund evrur. Þetta gerðu þau ekki af neinni greiðasemi við Íslendinga heldur af ótta við að áhlaup yrði gert á breska og hollenska banka ef það spyrðist út að mögulegt væri að tapa á viðskiptum við banka. Þetta var alveg sérstaklega engin greiði við Íslendinga því íslenska fjármálakerfið var þegar hrunið til grunna og ekkert til að gera áhlaup á. Bretar voru þá þegar búnir að setja Íslendinga á lista yfir hryðjuverkasamtök. Gordon Brown og Alistair Darling höfðu úthrópað Ísland í fjölmiðlum. Svona orðaði Brown þetta 9. október 2008:

We are freezing the assets of Icelandic companies in the UK where we can. We will take further action against the Icelandic authorities where necessary to recover the money.

Bresk stjórnvöld hafa beitt íslensk stjórnvöld og íslenskan almenning ofríki undanfarin tvö ár. Nýr utanríkisráðherra Breta hófst handa við að biðjast afsökunar á því á dögunum, að vísu ekki við Íslendinga sjálfa heldur norskt dagblað.

En aftur að eignum í þrotabúi Landsbankans sem mun taka mörg ár að koma í verð. Ef það er staðföst trú stjórnvalda í löndunum þremur að eignirnar hrökkvi fyrir innistæðunum sem Bretar og Hollendingar bættu hver vegna þarf þá að blanda íslenskum stjórnvöldum í málið? Hvers vegna bíða menn í Lundúnum og Amsterdam ekki rólegir eftir því að peningarnir skili sér úr hinu gjöfula þrotabúi?

Hvers vegna óska þeir aftur og aftur eftir því að íslenskur almenningur gangist í ábyrgð fyrir þeirra eigin verk?