Föstudagur 10. desember 2010

344. tbl. 14. árg.

Þ á gerir vinstristjórnin þriðju tilraunina til að koma icesave-ánauðinni yfir á íslenska skattgreiðendur. Ríkisstjórnin er friðlaus þangað til henni tekst þetta. Evrópusambandið vill þetta og þar með vill Samfylkingin það og þar með vill Steingrímur J. Sigfússon það og þá hlýða vinstrigrænir.

Og nú eru komin rök fyrir ánauðinni, sem hver endurtekur við annan, fyrsta daginn sem nýjasta samkomulagið er kynnt: Jú, aðalatriðið við þetta samkomulag er, að Svavar og Indriði gerðu enn verra samkomulag áður.

Það virðist vera aðalatriðið hjá mörgum: Að vísu er engin lagaskylda að borga þetta og upphæð óþarfra greiðslna til Breta og Hollendinga nemur tugum og allt upp í nokkur hundruð milljarða króna í erlendum gjaldeyri og skuldir ríkisins aukast sem því nemur – en fyrst Svavar og Indriði sömdu enn verr en þetta í fyrra, eigum við þá ekki bara að borga núna?

Fram hefur komið í fréttur að íslenskum stórfyrirtækjum hefur gengið vel að fjármagna sig erlendis á síðustu mánuðum, þrátt fyrir að icesave sé „óleyst“. Marel fékk hundruð milljóna að láni í sjálfu icesave-landinu Hollandi á dögunum og að sögn forsvarsmanna fyrirtækisins minntust hollenskir bankamenn ekki einu orði á icesave í viðræðum þeirra. Það hefur ekkert komið fram sem kallar á Íslendingar taki á sig gríðarlegar skuldbindingar umfram skyldu, enda grípa stjórnarliðar nú einna helst til þeirrar röksemdar að þeir Svavar og Indriði hafi samið enn verr síðast.

Samningur sem hefur það helst við sig að Svavar og Indriði hafi samið verr síðast, hann er ekki góður. Skiljanlega bendir stjórnarandstaðan á það, að nú blasir við öllum hversu fráleitur málflutningur stjórnarliða og samherja þeirra í Efstaleiti og hjá „aðilum vinnumarkaðarins“ hefur verið í málinu, en slíkt skiptir ekki öllu í augnablikinu. Meginatriðið nú er að reynt að er koma á íslenska skattgreiðendur gríðarlegum skuldum sem þeim eru óviðkomandi. Hinir enn verri samningar Svavars og Indriða segja að vísu talsverða sögu um ríkisstjórnina, álitsgjafana og fjölmiðlana sem reyndu að koma þeim samningum í gegn. En þeir breyta ekki því sem máli skiptir um icesave-ánauðina. Henni ber að hafna.