S kýrt hefur verið frá því að í dag muni hefjast nýjar opinberar tilraunir vinstristjórnarinnar til að fá Sjálfstæðisflokk og Framsóknarflokk til að hjálpa henni að leggja icesave-ánauðina á íslenska skattgreiðendur.
En hvorki vinstristjórnin né fjölmiðlamenn hennar þurfa að eyða löngum tíma í að kanna afstöðu Sjálfstæðisflokksins. Hún liggur fyrir og væri raunar ekki á valdi forystu flokksins að breyta henni þótt hún vildi, sem hún auðvitað vill alls ekki.
Á landsfundi Sjálfstæðisflokksins í sumar var sérstaklega tekið á icesave-málinu. Fyrir fundinn – og er þá átt við hinn raunverulega landsfund, þar sem allir fulltrúar geta tekið þátt í umræðu og greitt atkvæði – var lögð sú tillaga að Sjálfstæðisflokkurinn hafnaði „ósanngjörnum kröfum Breta og Hollendinga“.
Landsfundur tók þá ákvörðun að breyta þessu orðalagi með mjög afgerandi hætti. Hann tók þá ákvörðun að Sjálfstæðisflokkurinn hafnaði „löglausum“ kröfum Breta og Hollendinga. Þar með kvað landsfundur upp úr um það, að Sjálfstæðisflokkurinn bæði hafnaði kröfunum og lýsti þær löglausar. Eftir þetta skipti ekki máli, að því er Sjálfstæðisflokkinn varðaði, hvað nákvæmlega kæmi út úr prósentubrota-reiptogi einhverra samninganefnda. Kröfurnar eru löglausar, Sjálfstæðisflokkurinn hafnar þeim. Málið er útrætt af hálfu Sjálfstæðisflokksins.
Hér var ekki á ferð almenn stefnumótun til framtíðar, eins og algengt er í landsfundarályktunum flokka, þar sem gjarnan er talað um að mikilvægt sé að iðnaður blómstri og samgöngur séu bættar. Hér kvað landsfundur upp úr um afstöðu flokksins til annars af tveimur stærstu deilumálum síðustu tveggja ára, máls sem hafði meira að segja gengið til allsherjaratkvæðagreiðslu landsmanna. Og niðurstaða landsfundar, þessa æðsta valds Sjálfstæðisflokksins er afar skýr: Kröfurnar eru löglausar. Sjálfstæðisflokkurinn hafnar þeim.
Þingmenn flokksins eru vitanlega bundnir við þessa skýru afstöðu. Ekki bundnir við hana í þeim skilningi að þeim sé að landslögum skylt að greiða atkvæði í samræmi við hana. En þeir eru bundnir við hana í þeim skilningi að þeir geta varla farið gegn henni og haldið áfram að vera þingmenn Sjálfstæðisflokksins.
Þetta veit forysta Sjálfstæðisflokksins mætavel og hefði ekki þurft ákvörðun landsfundar til. Hún mun öll sem ein leggjast gegn löglausum kröfum Breta og Hollendinga.