E itt af því sem heyrðist oft frá ýmsum hinna 525 frambjóðenda til álitsgjafanefndar um stjórnarskrármál var að náttúruauðlindir skyldu vera í „eign þjóðarinnar“. Vefþjóðviljinn fletti því símaskránni en enga þjóð var þar að finna. Heldur ekki í fyrirtækjaskránni. Jafnvel í sjálfri þjóðskránni er enginn sem gegnir þessu heiti.
Sjálfsagt er það aðeins tæknilegt vandamál að skrá þjóð sem lögaðila. En þangað til verður ekki hlaupið að því að gera þjóð að eiganda nokkurs hlutar, hvað þá allra náttúruauðlinda á Íslandi. Þótt menn setji ákvæði um eign þjóðarinnar á hinu og þessu í stjórnarskrá lýðveldisins er samt betra að þessi þjóð sé eitthvað áþreifanlegra en nú er.
Hvernig ætla menn til dæmis að þinglýsa eign þjóðarinnar á náttúruauðlindum eins og laxveiðiám án þess að þjóðin sé til sem eitthvað annað en hugtak í kolli álitsgjafa?
En gefum okkur að að það takist að setja ákvæði um þjóðareign náttúruauðlinda í stjórnarskrána, væntanlega þá í stað greinarinnar um friðhelgi eignarréttarins. Og að í kjölfarið finnist sýslumaður sem er fáanlegur að þinglýsa eign þjóðarinnar á öllum túnum og engjum landsins. Hvert ættu bændur sem vildu leigja túnin til að heyja af þeim að snúa sér?
Er einhver með númerið hjá þjóðinni?