Miðvikudagur 1. desember 2010

335. tbl. 14. árg.

Þ á er búið að skipa fólk í enn eina nefndina hjá ríkinu. Nefndin á að vera Alþingi til ráðgjafar um stjórnarskrá lýðveldisins. Óhætt er að segja að fjölmiðlar hafi hrósað sigri í gær þegar loks tókst að ljúka talningu í kjöri til nefndarinnar. Flestir sem náðu kjöri í nefndina voru landsmönnum kunnir úr fjölmiðlum áður en framboðsfrestur til hennar rann út.

Þó er á þessu sú undantekning að Ástrós Gunnlaugsdóttir og Dögg Harðardóttir náðu kjöri en fáir höfðu heyrt þeirra getið fyrir nokkrum vikum. Þorsteinn Arnalds var heldur ekki langt frá því en hann hlaut fleiri atkvæði í fyrsta sætið en sjö þeirra sem á endanum náðu kjöri í nefndina.

Þessi niðurstaða kemur ekki á óvart. Nú þegar svo gott sem búið er að banna einstaklingum og fyrirtækjum – öðrum en fjölmiðlum – að styrkja frambjóðendur munu menn sem fjölmiðlar hafa ekki hampað eiga á brattann að sækja.

Það dylst engum að á nefndinni er mikil vinstri slagsíða. Hún er eins að því leyti og hinar 150 nefndirnar sem ráðherrar norrænu velferðarstjórnarinnar hafa skipað frá 1. febrúar 2009.

Nefndin sem kölluð er stjórnlagaþing verður hins vegar mun dýrari á allan hátt en hinar 150 nefndirnar. Aðferðin við val í nefndina var sú dýrasta sem notuð hefur verið í sögu lýðveldisins. Nefndin er skipuð 25 einstaklingum sem verða mánuðum saman á þingfararkaupi við nefndarstörf. Leigt hefur verið sérstakt húsnæði undir nefndina og í kringum hana eru og verða starfsmenn, kynningarfulltrúar og aðrar nefndir á þönum. Kostnaður við þetta er mörg hundruð milljónir króna.

N efndarinnar bíða að sögn mörg erfið verkefni. Þeir nýkjörnu nefndarmenn sem hafa tjáð sig við fjölmiðla hafa þó flestir lagt mikla áherslu á góð samstaða náist um helstu mál.

Er búið að segja Ara Teitssyni frá því að hann verði að læra að drekka latte?