Þórunn Sveinbjarnardóttir: Við verðum hins vegar að gera okkur ljóst að þetta hefur átt sér mjög langan aðdraganda. Bæði hugmyndin og tillagan um stjórnlagaþing er mjög gömul tillaga þingmannsins Jóhönnu Sigurðardóttur, margflutt á Alþingi, þó að í meðferð málsins hafi það auðvitað breyst og orðið að þeirri tillögu sem samþykkt var síðastliðið sumar. |
Hallgrímur Thorsteinson: Já er þetta svoldið hennar mál, finnst þér? |
Þórunn Sveinbjarnardóttir: Já, þetta er hennar hjartans mál. Og ég get nú ímyndað mér að hún sé afar glöð og stolt í hjarta sínu, forsætisráðherra landsins, að þetta skuli vera komið hingað í dag og ég held að við getum verið það öll sem stóðum að því að flytja þessa tillögu og samþykkja í þinginu, þingmenn næstum allra flokka. |
– Úr Vikulokum Rásar 1 að morgni kjörs til stjórnlagaþings, 27. nóvember 2010. |
M enn þurfa ekki að vera undrandi á því að ekki hafi náðst í Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra frá því snemma á laugardaginn þegar þau boð voru send um heimsbyggðina að hún hefði greitt atkvæði í stjórnlagaþingskosningunum. Fram að kjördegi hafði Jóhanna eggjað landsmenn mjög til að greiða atkvæði. Allir á kjörskrá fengu sent persónulegt sýnishorn af kjörseðlinum, sem hver greiddi fyrir af launum sínum. Tugum milljóna króna af almannafé var eytt í áróður um að nýta nú atkvæðisréttinn. Hundrað milljónum króna var eytt í þúsund manna peppfund fyrir kosningarnar sem af hæversku var nefndur þjóðfundur. Ríkisstjórnarútvarpið hamaðist við að lofa gjörninginn. Engin gagnrýni á ruglið mátti komast að.
Þórunn Sveinbjarnardóttir formaður þingflokks Samfylkingarinnar sagði réttilega að stjórnlagaþingið væri hjartans mál Jóhönnu Sigurðardóttur.
Jóhanna varð forsætisráðherra nokkrum mánuðum eftir mikið efnahagslegt áfall haustið 2008. Mörgum hefur þótt sem ríkisstjórn hennar sé uppteknari við ýmis hjartans mál sín en að greiða úr helstu vandræðamálum. Það er búið að banna nektardansinn, hækka alla skatta og undirgangast ESB-aðlögun.
Stjórnlagaþingið var eitt hjartans málið til.