F
ormaður stjórnlaganefndar, sem hefur veg og vanda að hinu dýra og undarlega stjórnlagaþingi, er Guðrún Pétursdóttir líffræðingur. Eiginmaður hennar er í framboði til stjórnlagaþingsins. Það er smekklegt. Hann hefur ekkert auglýst í blöðum. Í gær notaði Guðrún aðstöðu sína sem starfsmaður skattgreiðenda og ataði þá frambjóðendur auri sem hafa notað blaðaauglýsingar til að kynna sig. Þó eru þessar auglýsingar í fullkomnu samræmi við sérstök lög sem samþykkt voru um stjórnlagaþingskosninguna. Sjálf hefur stjórnlaganefnd Guðrúnar eytt tugum milljóna króna af fé skattgreiðenda í ástæðulaust auglýsingaskrum að undanförnu.
Í lögum um stjórnlagaþingið er tekið fram að falli úrslitin ekki að kröfum jafnréttisstofu um kynjahlutföll verði þau leiðrétt. Frambjóðendur með lítinn stuðning verði þá einfaldlega teknir fram fyrir þá sem hlutu meiri stuðning. Jafnréttisstofa hefur kynnt þessar kröfur og önnur tilmæli til kjósenda með sjónvarpsauglýsingum undanfarið, án þess þó að fá skít og skömm frá Guðrúnu Pétursdóttur fyrir. Það er ljótt að auglýsa nema gera það á kostnað hins gjaldþrota ríkissjóðs.
Tveir menn staðfærðu kosningakerfið um „eitt reikult atkvæði“ fyrir Ísland. Eru þá vonandi að minnsta kosti tveir menn á landinu sem skilja kerfið, þótt Vefþjóðviljinn efist raunar um það. Hönnuðirnir eru að sjálfsögðu báðir í framboði. Það er sjálfsagt ekkert ólöglegt eða ósiðlegt við það. Bara eitthvað stjórnlagaþingslegt.
Ekki má brjóta kjörseðla saman. Brotnir og krumpaðir seðlar geta staðið í bresku talningavélunum. Talningavélarnar voru fluttar voru til landsins því íslenskt hugvit gat í fyrsta sinn í lýðveldissögunni ekki leyst þá þraut að telja atkvæði í kosningum.
Sagt er að talningin muni aðeins taka nokkra daga – ef allt gengur að óskum.
Frambjóðendur geta ekki haft fulltrúa sína viðstadda talningu eins og venja er í kosningum.
Útfylling kjörseðla er svo flókin að ekki er mögulegt að blindir og sjónskertir geti kosið leynilega eins tíðkast hefur í kosningum hér á landi. Hingað til hafa sjónskertir fengið spjöld með sér í kjörklefann og getað merkt við sjálfir á kjörseðilinn. Þeir munu nú fá með sér ríkisstarfsmann í kjörklefann.
Þrátt fyrir allar yfirlýsingar undanfarinna ára um að allt þurfi að vera „gagnsætt“ og „uppi á borðum“ hafa frambjóðendurnir 525 hvergi þurft að gefa upplýsingar um hagsmunatengsl sín og fjárhagslega hagsmuni. Kjósendur hafa aldrei vitað jafn lítið um hvaða hagsmunum frambjóðendur tengjast og nú.
Og það sem verra er. Kjósendur hafa aldrei vitað jafn lítið um stefnumál frambjóðenda og nú. Enda hafa fæstir frambjóðendur haft dug eða rænu á að kynna sig. Þeir fáu sem sýna kjósendum þá virðingu að kynna sig fá ákúrur frá sirkusstjóranum.