Þriðjudagur 9. nóvember 2010

313. tbl. 14. árg.

Ú tgjöld sveitarfélaga til íþróttamála ættu að vera einhverjum rannsóknarefni. Álftanes er beinlínis gjaldþrota vegna slíkra útgjalda og mörg önnur sveitarfélög við það að fara sömu leið. Í þeirri skoðun hlýtur það að fá sérstaka athygli að margir sveitarstjórnarmenn hafa verið í forystustörfum fyrir íþróttafélög á sama tíma og þeir hafa fjárveitingarvald úr opinberum sjóðum til íþróttamála. Alltaf stutt í næsta prófkjör.

Í Kastljósi Ríkissjónvarpsins í gærkvöldi velti Jón Gnarr borgarstjóri því upp hvort spara ætti 87 milljónir á næstu tveimur árum með því að loka skíðasvæðinu í Bláfjöllum. Nú er auðvitað líklegast að þetta sé eins og hver önnur þvæla úr manninum. Íbúar Reykjavíkur voru til að mynda orðnir 130 þúsund hjá borgarstjóranum í gærkvöldi og eru þá geimverur væntanlega taldar með. Það er sennilega jafn líklegt að skíðasvæðunum verði lokað eins og að ísbjörn fái pláss í kanínubúrinu í húsdýragarðinum. En viðbrögðin hafa ekki látið á sér standa. Formaður Skíðadeildar Breiðabliks segir í viðtali við Vísi að „maðurinn sé klikkaður“.

Það veit hvert mannsbarn að sum sveitarfélögin sem standa að Bláfjöllum, þar á meðal Álftanes og Hafnarfjörður, búa við hrikalega fjárhagsstöðu. Nýlega gaf tímaritið Vísbending sveitarfélögum einkunn á bilinu 0 til 10 fyrir fjármálastjórn og fleira. Við einkunnagjöfina er litið til þriggja síðustu ár. Á vef Vísbendingar segir:

Þá skera tvö bæjarfélög sig úr, nær jöfn í efsta sæti: Seltjarnarnes og Garðabær. Hvað er það sem gerir þessi bæjarfélög góð? Útsvarsprósentan er lægri þar en annars staðar. Hjá fjölskyldu með 5 milljón króna árstekjur var útsvarið 46 þúsund krónum lægra á Seltjarnarnesi en í Reykjavík. Þetta jafngildir um það bil 2 % hærri ráðstöfunartekjum. Afkoma er góð og skuldir sem hlutfall af tekjum eru nálægt 100% í báðum bæjarfélögunum. Athygli vekur að höfuðborgin fær 3,9 í þriggja ára meðaltal og er með falleinkunn öll árin.

Langbestu sveitarfélögin skulda „aðeins“ allar árstekjur sínar! Þrír af eigendum skíðasvæðanna í Bláfjöllum, Kópavogur, Hafnarfjörður og Álftanes, fá einkunn á bilinu 2,2 til 2,8.

Engu að síður er til fullorðið fólk sem segir borgarstjóra „klikkaðan“ fyrir þá hugmynd að Bláfjöll verði ekki lokuð 360 daga á ári heldur 365.

En hvað á þetta fólk að halda á meðan Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra og Jón Gnarr borgarstjóri halda áfram að byggja 30 þúsund milljóna tónlistarhöllina og þau 1600 bílastæði sem henni eiga að fylgja? Er nokkur von til þess að hinn almenni maður trúi því að það þurfi að spara á meðan ríki og borg halda tónlistarhallarbrjálæðinu til streitu?