H ún er í stíl við annað, ruglsamkoman sem haldinn er í dag undir nafninu „þjóðfundur“.
Sumir halda að þátttakan á fundinum hafi verið góð. Hátt í þúsund manns hafi mætt. Fáir nefna hversu margir þeirra eru í raun úr þeim þúsundmanna hópi sem valinn var með „slembiúrtaki“. Stjórnvöld brugðu nefnilega á það ráð, að draga ekki aðeins út þúsund manns til setu á fundinum, heldur bættu við fjögurþúsund varamönnum, til að fá sem flesta til að koma. Í lögum um stjórnlagaþingið, þar sem þjóðfundurinn var ákveðinn, var hvergi talað um að þjóðfundarmenn skyldu hafa varamenn, hvað þá að varamennirnir skyldu vera fjögurþúsund.
En er þetta ekki bara fínt? Er ekki fínt að fá sem flesta? Ja, ef menn héldu í raun að þessi fundur skipti einhverju máli, þá væri þetta auðvitað verra. Það má nefnilega ímynda sér að drjúgur hluti þeirra aðalmanna, sem ákváðu að fara ekki á fundinn, hafi verið þeir sem sáu í hendi sér hvílík vitleysissamkoma þetta væri. Í staðinn fyrir að sæti þeirra væru auð, en í því fælust auðvitað skilaboð, þá eru þau fyllt með fleiri fulltrúum hins hópsins, þeirra sem halda að með því að sitja og ræða stikkorð og frasa við hópstjóra á hringborðum megi finna „gildi þjóðarinnar“ sem síðan rati í stjórnarskrá. Tuttugasta grein: Allir eiga að vera heiðarlegir.
Í dag hafa fréttamenn þulið upp spekina úr þjóðfundinum. „Gildi þjóðarinnar“ eru jafnrétti, heiðarleiki og frelsi. Við fundarmenn erum svakalega góðar manneskjur.
Ein spurning: Hvaða líkur eru á að orðið „hógværð“ komi fram í niðurstöðum fundarins? Ætli það sé meðal „gildanna“?
Það er einfaldlega ekkert sérstakt að stjórnarskránni, enda hefur engin brýn breytingartillaga verið kynnt. En framboðið er nægt af meinlokum, einfeldningshætti og misskilningi. „Þjóðfundurinn“ er að mörgu leyti eðlilegt forspil þess stórfellda rugls. Hann er raunar mun skárri, þrátt fyrir alla frasana sem fyrirsjáanlega verða settir fram í hans nafni. Hann er þó bara froðuvél, en stjórnlagaþingið er bein tilraun til að stórskemma sjálfa stjórnarskrá landsins.