Föstudagur 5. nóvember 2010

309. tbl. 14. árg.

Í huga margra eru atvinnumálin mál málanna, sem ekki þarf að koma á óvart þar sem þúsundir manna eru nú atvinnulausar. Fjölmargir þeirra, sem hafa vinnu, óttast að bætast í hóp hinna atvinnulausu. Á dögunum var tugum manna sagt upp hjá Orkuveitu Reykjavíkur.

Fyrir síðustu kosningar, fyrir fimm mánuðum, spurði Monitor oddvita framboðanna í Reykjavík nokkurra spurninga um borgarmál. Eins og rifjað var upp á dögunum sagðist einn þeirra, Jón Gnarr, vilja lækka útsvarið en aðrir höfðu ýmsar afsaknir gegn því. Í blaðinu var hins vegar spurt um fleira en útsvar. Meðal annars var spurt hvert hlutverk borgarinnar ætti að vera í baráttunni gegn atvinnuleysi. Svörin voru á ýmsa lund, en mestu skiptir væntanlega nú hverju núverandi borgarstjóri svaraði. Svar Jóns Gnarrs var þetta:

Ég tel að borgin eigi að leggja sitt af mörkum til að tryggja störf þeirra sem starfa hjá borginni og hafa frumkvæði að atvinnuskapandi verkefnum. Virkja sköpunargáfu ungs fólks.

Ekki er vafamál að þessi orð Jóns hafa fyllt marga óttaslegna borgarstarfsmenn von, ekki síst þegar Jón var sestur í stól borgarstjóra. Rétt eins og ýmsir útsvarsgreiðendur hafa eflaust fagnað því að Jón vildi lækka útsvarið. Nú stendur hins vegar til að hækka útsvarið og búið er að segja upp tugum manna hjá Orkuveitunni.

Minnihlutinn í borgarstjórn vildi fara aðra leið en Jón við hagræðingu hjá Orkuveitunni. Lækka starfshlutföll og laun í stað uppsagna. Kjartan Magnússon, fulltrúi minnihlutans í stjórn Orkuveitunnar fundaði með starfsmönnum til að kynna þær hugmyndir. Jón Gnarr í viðtali við Fréttatímann að á þessum fundi hafi starfmönnum verið „gefin von“:

Þetta var svo ljótt, svo miskunnarlaust og ljótt. Ég sá það þar sem ég sat á móti þeim á borgarstjórnarfundi að sá eini sem ekki gladdist yfir vinnubrögðunum var Gísli Marteinn Baldursson. Ég sá sorg í augum hans.

Hvað voru margir borgarstarfsmenn sem kusu Jón Gnarr vegna þeirrar vonar sem hann gaf þeim um „að tryggja störf þeirra sem starfa hjá borginni“? Var ekkert „ljótt, svo miskunnarlaust og ljótt“ að gefa slíkar falsvonir fyrir kosningar?

Að þessu munu fréttastofurnar vafalaust spyrja borgarstjórann. Fréttastofurnar munu telja það næstum jafn áhugavert og tattú borgarstjórans.