Fimmtudagur 4. nóvember 2010

308. tbl. 14. árg.

B oðað hefur verið til mótmæla á Austurvelli í dag er þing kemur saman eftir hlé sem varð vegna mikilvægra fundahalda Norðurlandaráðs. Vefþjóðviljinn hefur sömu skoðun á samblæstri af þessu tagi og fyrr. Þessi mótmæli eru stökkpallur fyrir alls kyns ofbeldismenn og skemmdarvarga. Og þótt þau séu kölluð friðsöm er jafnan til þeirra boðað með þeim orðum að spilla eigi störfum þingsins með hávaða og látum, hvort sem það er kennt við pönnur eða tunnur.

En Vefþjóðviljinn hélt í einfeldni sinni að Ríkisútvarpið myndi auglýsa mótmælin í öllum fréttatímum og kjaftaþáttum sínum í dag. Svona eins og það gerði samviskusamlega fyrir tveimur árum. Ríkisútvarpið ætlar heldur ekki að sjónvarpa mómælunum beint eins og það gerði jafnan fyrir tveimur árum. Hvað kemur til?

Egill Helgason starfsmaður Ríkisútvarpsins vakti athygli á því í gær á bloggi sínu að vinstri grænir séu nú alfarið andvígir mótmælafundum af þessu tagi. Vinstri grænir eru þá ekki aðeins búnir að kasta frá sér öllum helstu stefnumálum, AGS, Icesave, ESB og þjóðaratkvæðagreiðslum, heldur einnig helstu baráttuaðferð róttækra vinstri manna um áratugi, útifundunum.

Egill skrifar:

Þegar búsáhaldabyltingin var gerð talaði einn helsti foringi Sjálfstæðismanna um skríl sem hefði ráðist á Alþingishúsið. Og margt hefur verið sagt um að það hafi verið VG sem skipulagði mótmælin.

Nú hefur þetta alveg snúist við. Margir vinstri menn eru afskaplega taugaveiklaðir vegna mótmæla sem hafa blossað upp í haust – þeir hafa allt á hornum sér, tala um tunnulýð og fólk sem komi á jeppum í mótmælaaðgerðir og því er haldið fram að gamlir forystumenn úr Sjálfstæðisflokknum séu að ýta undir mótmælin.

Í huga þeirra eru búsáhaldamótmælin góð en tunnumótmælin vond.

Svona hefur þetta snúist við.

Hvaða gömlu forystumenn úr Sjálfstæðisflokknum ætli það séu sem vinstri grænir ímynda sér að ýti undir mótmælin? Þorsteinn Pálsson? Ólafur G. Einarsson? Salóme? Vefþjóðviljinn þykist fylgjast ágætlega með en hefur ekki orðið var við að forystumenn úr Sjálfstæðisflokknum, hvorki nýir né gamlir, hvetji menn til þátttöku í mótmælunum svonefndu.

En Egill ætti að líka að líta sér nær. Hefur hann skýringu á því hvers vegna vinnuveitandi hans, Ríkisútvarpið, hefur alveg misst áhuga á að auglýsa mótmæli í fréttatímum eða senda þau beint út? Hvers vegna eru engin herútboð í fréttatímum Ríkisútvarpsins í dag?