N ú er Bjarni Harðarson búinn að finna út að það sé erfitt að draga inngöngubeiðni í Evrópusambandið til baka. Að vísu útskýrir hann ekki hvers vegna fullvalda ríki getur ekki afturkallað slíka umsókn, en hugsanlega er þessi skoðun hans byggð á sama innsæinu og þegar hann fyrir síðustu þingkosningar ákvað skyndilega að kjósa Vinstrigræna og hvatti aðra til hins sama, til þess að… hindra inngöngu í Evrópusambandið. Nógu margir fóru að þeim ráðum til að unnt var að mynda ríkisstjórn um það málefni. Bjarni er enn í Vinstrigrænum og sendir þaðan út ráðleggingar og stöðumat í baráttuna.
A llir eru að reyna að spara. Þannig hafa íslensku fjölmiðlarnir komið sér upp sameiginlegum fréttaritara í Miðausturlöndum, Sveini Rúnari Haukssyni, og birta stöðugar fréttir af ævintýrum hans. Hann er stöðvaður á landamærastöðvum þrátt fyrir að hafa reynt að skapa sér traust allra aðila, hann flækist í vegatálma, hann stingur sig á píramíta, hann tapar drykkjukeppni við úlfalda, hann fer fleiri árangurslausar ferðir inn á Gaza en Óttar Felix á Hard Days Night, og alltaf fylgjast íslenskir áheyrendur og lesendur agndofa með. Sem betur fer er Sveinn Rúnar alltaf með réttlætið með sér, sem er raunar auðvelt því á málefnum Mið-Austurlanda er aðeins ein hlið, eins og íslenskir fréttaskýrendur vita.