Miðvikudagur 20. október 2010

293. tbl. 14. árg.

G laðhlakkalegir fjölmiðlar sögðu frá því í dag, að þingsályktunartillaga nokkurra alþingismanna um að samhliða kosningu til stjórnlagaþings skuli fara fram atkvæðagreiðsla um afturköllun inngöngubeiðni í Evrópusambandið standist ekki nýsamþykkt lög um þjóðaratkvæðagreiðslur. Flutningsmenn tillögunnar voru Vigdís Hauksdóttir, Ásmundur Einar Daðason, Birgitta Jónsdóttir og nokkrir aðrir þingmenn, og í viðtali við Ríkisútvarpið viðurkenndi Vigdís að hún hefði steingleymt hinum nýsamþykktu lögum.

Nú væri raunar hægðarleikur að bæta úr þessu, og mætti gera án þess að breyta hinum nýsamþykktu lögum. En það er aukaatriði. Vefþjóðviljanum er annað hugstæðara í þessu samhengi.

Aðeins örfáir dagar eru síðan Vigdís Hauksdóttir, Ásmundur Einar Daðason og Birgitta Jónsdóttir greiddu því öll atkvæði að fjórir fyrrverandi ráðherrar yrðu ákærðir og dregnir fyrir landsdóm. Meðal þess sem þau vildu ákæra ráðherrana fyrir, voru „sakarefni“ eins og að hafa ekki haldið ríkisstjórnarfund og hafa ekki látið gera „faglega greiningu“ á fjárhagsskuldbindingum ríkisins, þótt engin lagaskylda hafi verið að gera slíka úttekt.

Ætli hinir nútímalegu þingmenn, Vigdís Hauksdóttir, Ásmundur Einar Daðason og Birgitta Jónsdóttir, séu enn jafn sannfærð um það, að hin ætluðu mistök ráðherranna hljóti að hafa verið refsiverð? Sennilega hafa þingmennirnir mikinn skilning á því, að það séu mannleg mistök að leggja til atkvæðagreiðslu með hætti sem færi gegn nýsamþykktum lögum. Ætli þeim hafi eitthvað aukist skilningur á því, að háttsemi ráðherranna fyrrverandi hafi kannski ekki verið refsiverð?