Borgin er nú mjög fjárvana og ætti því að gera gott deiliskipulag af Vatnsmýrinni. Selja svo lóð sína þar fyrir a.m.k. 70 milljarða kr., eins og prófessor Þorvaldur Gylfason sagði í Silfri Egils 5. okt. 2008. |
– Gunnar H. Gunnarsson, umferðaröryggisfræðingur, í grein í Morgunblaðinu 30. janúar 2010. |
Þ essa dagana rifja ýmsir fjölmiðlar upp helstu atburði októbermánaðar 2008, enda eru nú tvö ár síðan viðskiptabankarnir komust í þrot. Þar má rifja upp þessa grein Gunnars H. Gunnarssonar, því hún bregður upp lítilli mynd.
Að vísu verður að taka fram, að Vefþjóðviljinn er ekki með þennan sjónvarpsþátt fyrir augunum heldur byggir hér á endursögn Gunnars. En sé hún rétt og sanngjörn, þá er frásögnin töluvert forvitnileg, eins og áður hefur verið rakið.
Hvernig var ástandið í landinu sunnudaginn 5. október 2008? Alla helgina voru ráðherrarnir Geir, Össur, Jóhanna og Árni í ráðherrabústaðnum á neyðarfundum með bankastjórum og forkólfum lífeyrissjóðanna. Úti biðu fréttamenn og enginn fór í grafgötur um að staðan væri stóralvarleg. Myndi efnahagslífið lifa af?
Enginn talaði um annað, nema reyndar í Silfri Egils, þar sat Þorvaldur Gylfason og ræddi um að borgin gæti selt byggingarlóðir í Vatnsmýri fyrir „a.m.k. 70 milljarða króna.“ Maðurinn sem sá allt fyrir, eins og nokkrir bloggarar halda.
Nokkrum dögum síðar var bankakerfið hrunið og algert frost lagðist yfir byggingariðnaðinn. Sveitarfélög þurftu að greiða milljarða króna vegna þess að úti um allt skilaði fólk þeim byggingarlóðum sem það hafði fengið úthlutað.