Mánudagur 4. október 2010

277. tbl. 14. árg.

Í hvaða landi í veröldinni, öðru en Íslandi, ætli það yrði látið viðgangast að menn grýttu þjóðhöfðingjann, biskupinn og þingmenn löggjafarþingsins og aðra samborgara sína, og samkomur í því skyni yrðu eftirmálalaust boðaðar opinberlega?

Engu.

En í hverju einasta landi, þar sem tilkynnt væri að menn gætu áhættulaust mætt með egg, tómata og barefli, og hamast á kjörnum stjórnvöldum, þá myndi mikill hópur manna nýta tækifærið.

Það þarf ekki bankagjaldþrot og erfitt efnahagsástand til að kalla slíkan hóp fram. Það eitt, að menn viti að þeir muni komast upp með slíka framgöngu, er nóg fyrir marga. Við slíkar aðstæður mun alltaf myndast slíkur hópur sem grípur tækifærið.

En þótt þetta megi vera augljóst þá er það auðvitað ekki svo að ekki mæti aðrir en ruddar og ofstopamenn á Austurvöll til að láta í ljós skoðanir sínar.

Afar margir búa við erfiðar aðstæður, þótt ástæður erfðileika þeirra kunni að vera ólíkar. Á sama tíma sitja stjórnvöld í landinu sem þvælast fyrir uppbyggingu atvinnulífsins, tefja flest það sem til fjöldagagns gæti orðið, og hækka skatta á þá sem hafa vinnu – og taka þannig til ríkisins verðmæti sem ella gætu nýst annars staðar. Ríkisstjórnin reynir að leggja skuldir einkabanka á íslenska skattgreiðendur. Stjórnvöld eru ákaflega upptekin af fortíðinni en virðast lítið hugsa um efnahagslega framtíð í landinu. Og ekki fer milli mála að mörgum þykja sumir bankar taka með ólíkum hætti á venjulegum og óvenjulegum skuldurum sínum, og þykir sem sumt af því hljóti að vera gert með vitund og vilja ráðamanna. Sú skoðun eykur auðvitað mjög á óánægju þeirra sem sjálfir glíma við erfiða stöðu.

Margir þeirra sem safnast saman við þinghúsið eiga lögmætt erindi. En þau lögmætu erindi réttlæta ekki uppþot, eggjakast eða að gera þingið eða nálæg fyrirtæki, stofnanir og heimili, óstarfhæft með hávaða. Þeir sem láta í ljós skoðun sína með friðsömum og löglegum hætti, þeir geta hæglega kallað sig mótmælendur og geta haft góðan málstað. Þeir sem hyggjast knýja sjónarmið sín fram með valdi eða hótunum, þeir eru ekki mótmælendur.