272. tbl. 14. árg.
E kki var nú gærdagurinn glæsilegur fyrir Alþingi. En kannski í stíl við margt annað á Íslandi undanfarið. En hann kallar á Andríkispunkta.
- Í fyrsta lagi verður að taka fram það augljósa, ábyrgðin á því hvað Alþingi gerði og gerði ekki, er á höndum þeirra alþingismanna sem greiddu atkvæði í meirihluta hverju sinni. Það eru þannig þeir þingmenn einir, sem greiddu því atkvæði að Geir Haarde skyldi ákærður fyrir landsdómi, sem bera á því ábyrgð.
- En þótt þeir þingmenn, sem urðu undir, beri ekki ábyrgð á niðurstöðunni, þá er ekki þar með sagt að þeir hafi engu ráðið um niðurstöður gærdagsins. Þannig blasir við að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins gat ráðið mjög miklu um hvernig færi. Einhverra hluta vegna ákvað hann að gera það ekki.
- Þetta má útskýra, þótt óþarft sé líklega. Vitað er að Samfylkingin hefði ekki þolað að Ingibjörg Sólrún Gísladóttir yrði ákærð. Hluti Samfylkingarinnar hefði svo ekki þolað að Björgvin G. Sigurðsson yrði ákærður. Hér er átt við „þolað“, í bókstaflegri merkingu. Ingibjörg Sólrún hefði upplýst, svo flestir hefðu skilið, hvers vegna Össur Skarphéðinsson og Jóhanna Sigurðardóttir hefðu átt jafn mikið, eða lítið, erindi á sakamannabekkinn og aðrir. Samfylkingin hefði ekki getað setið í ríkisstjórn næstu árin með Vinstrigrænum, í þeirri stöðu að fyrrverandi formaður og fyrrverandi þingflokksformaður væru ákærð, með atkvæðum samstarfsflokksins og stjórnarandstöðunnar.
- Alveg var ljóst að Samfylkingin hefði gert hvað sem var til að tryggja að þau Ingibjörg Sólrún og Björgvin slyppu við ákæru.
- Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hafði í hendi sér hvort þau Ingibjörg Sólrún og Björgvin yrðu ákærð. Samfylkingin hefði aldrei nokkurn tíma látið undan löngun sinni til að ákæra Geir Haarde, nema hafa fengið fullvissu þess að þingflokkur Sjálfstæðisflokksins myndi bjarga þeim Ingibjörgu Sólrúnu og Björgvini, hvernig sem farið yrði með Geir.
- En er þá verið að segja að sjálfstæðismenn hefðu átt að ákæra Ingibjörgu Sólrúnu og Björgvin, ranglega, til þess að hefna fyrir ákæru á Geir? Nei, auðvitað er það ekki. Ákærudrögin gegn þeim voru fráleit. Vitlausust voru þau gegn Árna og Ingibjörgu Sólrúnu, en einnig haldlaus gegn Björgvini og Geir.
- Þingflokkur Sjálfstæðisflokksins hefði ekki þurft annað en að segja að hann myndi skoða málið upp á nýtt ef Geir yrði ákærður. Auðvitað hefði það stöðvað allt málið. Og hvað hefði verið óeðlilegt við að hugsa málið upp á nýtt? Afstaða til ákærudraganna, eins og þau voru í upphafi, var auðvitað meðal annars byggð á því hvernig lög um landsdóm höfðu áður verið túlkuð. Ef Alþingi hefði skyndilega ákveðið breytta túlkun, með því að ákæra Geir, þá hefði þar verið komið fullt tilefni til að skoða málið upp á nýtt. Þetta hefði þegar gert það að verkum að Samfylkingunni hefði ekki dottið í hug að ákæra Geir.
- Önnur leið hefði verið að leggja til að tillögunum yrði vísað frá án atkvæðagreiðslu. Því hefði getað fylgt hótun, jafnvel orðalaus, um að flokkurinn tæki ekki þátt í skrípaleiknum yrði þeirri tillögu hafnað. Samfylkingin hefði þá setið uppi með allt eða ekkert, og augljóst hvort hún veldi.
- Þegar þingmenn Sjálfstæðisflokksins létu vita að þeir myndu, hvað sem gerðist, gera sitt til að bjarga Ingibjörgu Sólrúnu og Björgvini, þá afhentu þeir Samfylkingunni ákvörðunarvaldið um hvað skyldi gert. Eftir það var það í höndum Samfylkingarinnar að ákveða hvort hún drægi annan eða báða sjálfstæðismennina fyrir dóm.
- Þingmönnum Sjálfstæðisflokksins finnst að þeir séu menn að meiri, að hafa ekki tekið þátt í hráskinnaleik. Það er alveg rétt hjá þeim að niðurstaðan varð eftir hráskinnaleik. En með því að nota ekki það eina tromp sem þeir höfðu á hendi, það sem Samfylkingin ágirntist mest af öllu, þá urðu þeir auðvitað til þess að í gang fór hráskinnaleikur. Ákvörðunarvaldið var flutt yfir í þingflokksherbergi Samfylkingarinnar.
- Auðvitað koma sjálfstæðismennirnir afgerandi betur út úr málinu en Samfylkingarmennirnir. Þingmenn flokksins geta vitanlega verið ánægðir með það. En það breytir ekki því, að einstaklingurinn Geir Hilmar Haarde sætir ákæru fyrir háttsemi sem fráleitt er að hafi verið honum refsiverð. Samfylkingin fær það svo í kaupauka að í huga margra í framtíðinni munu „hrunflokkarnir“, sem auðvitað er delluhugtak, ekki verða tveir heldur einn. Jóhanna Sigurðardóttir segist í einu viðtali vera mjög leið yfir þessu, fjöldi fólks er auðvitað hneykslaður á Samfylkingunni, en auðvitað eru þetta aukaatriði. Einstaklingurinn Geir H. Haarde, hvað sem mönnum finnst um stjórnmálamanninn Geir, sætir nú mjög ómaklegri meðferð og það er afar ógeðfellt – að ekki sé notað orðið „óheppilegt“ eins og formaður Framsóknarflokksins notaði í hamslausu viðtali í gærkvöldi.
- Auðvitað var það rétt hjá sjálfstæðismönnum í gær, að óréttlæti gagnvart einum er ekki bætt með óréttlæti gagnvart öðrum. Þess vegna er mjög skiljanlegt að þeir hafi verið sjálfum sér samkvæmir í gær og hafnað öllum ákærum. En það var vegna þessa fyrirsjáanleika þeirra, sem Samfylkingin gat óhrædd ákært fyrrverandi formann Sjálfstæðisflokksins. Hún gat verið viss um að það hefði ekki aðrar afleiðingar en að sjálfstæðismenn yrðu voðalega reiðir.
- Sjálfstæðismenn höfðu tvo kosti í hendi. Þeir gátu tryggt það að Samfylkingin myndi ekki treysta sér til að ákæra Geir Haarde. Til þess hefði ekki þurft annað en að láta hana velkjast í vafa um afstöðu nokkurra sjálfstæðisþingmanna gagnvart Ingibjörgu og Björgvini. Í öðru lagi gátu þeir auðvitað ákært Ingibjörgu Sólrúnu og þar með sprengt bæði ríkisstjórn og Samfylkingu í tætlur. Sem betur fór varð sá kostur ekki fyrir valinu, því jafnvel Ingibjörg Sólrún á ekki skilið svo persónulega illgerð í pólitískum tilgangi. En þessir tveir möguleikar voru auðvitað fyrir hendi. Í staðinn fann þingflokkur Sjálfstæðisflokksins þá aðferð sem bar þann árangur sem alþjóð gat séð í gær. En þingmennirnir eru þó menn að meiri.