Í slenska ríkið tók á sig miklar skuldbindingar vegna eigna landsmanna á bankabókum og í skuldabréfum haustið 2008. Ríkið varði sparifjáreigendur fyrir mörg hundruð milljarða króna tapi, bæði innstæðueigendur og eigendur bréfa í peningamarkaðssjóðum. Einhvern tímann hlýtur að koma að því að menn vegi og meti hvort þetta framtak hafi átt einhvern rétt á sér. Hvaða hagsmunir réttlættu að gera íslenska ríkið ógjaldfært og veðsetja framtíðina með þessum hætti? Margir Íslendingar og mörg hundruð þúsund útlendingar höfðu falið íslensku bönkunum sparifé sitt. Hvers vegna var reikningurinn fyrir þeirri röngu ákvörðun sendur skattgreiðendum í framtíðinni?
En það er ekki nóg með að ríkissjóður setji komandi kynslóðir í pant fyrir bankabækur landsmanna. Íbúðalánasjóður ríkisins og bankar sem eru að hluta í eigu ríkisins sanka nú að sér íbúðarhúsnæði til að koma í veg fyrir að verð íbúðarhúsnæðis lækki meira en orðið er. Þó er það eitt meginhlutverk Íbúðalánasjóðs lögum samkvæmt að hjálpa fólki að eignast húsnæði á viðráðanlegum kjörum. Nú reynir sjóðurinn hins vegar að halda verði uppi. Þetta brölt ríkisins er auðvitað á allra vitorði og því dettur engum í hug að kaupa húsnæði um þessar mundir, að minnsta kosti ekki fyrstu íbúð, enda er mikill hluti fasteignaviðskipta nú um stundir skipti á eignum. Og hvað ætli þessar kraftlyftingar á fasteignamarkaði muni kosta ríkissjóð þegar allt verður talið? Hvað kostar það Íbúðalánasjóð að lúra á mörg hundruð íbúðum? Það er hins vegar hreint ekki ljóst um árangurinn af þessu. Vantraustið á markaðnum minnkar ekki þegar menn vita af svona aðgerðum ríkisins.
Þótt ríkið tryggi innstæður og geri tilraun til að hækka verð á steinsteypu landsmanna er þar með ekki allt talið í viðleitni þess til að halda uppi eignaverði. Það hefur einnig ákveðið að hlaða undir mælieininguna sem þessi verðmæti eru mæld í. Til þess arna eru teknir gríðarlegir fjármunir að lána erlendis, höft eru á viðskipti með gjaldeyri og seðlabankinn leikur sjálfur stórt hlutverk á gervimarkaðnum. Það er sömuleiðis óljóst með árangur af þessu. Er líklegt að gjaldmiðill sem studdur er höftum og strengdur upp með lánalínum frá öðrum ríkjum njóti trausts?
Þessi ríkisafskipti sem að ofan eru talin, ríkisábyrgð á innstæðum og skuldabréfum, íbúðasöfnun og tilraunir til að halda úti gjaldmiðli, eiga stóran þátt í því að ríkissjóður skuldar skyndilega gríðarlegar fjárhæðir. Fjórða meginskýringin á skuldum ríkissjóðs er mikill hallarekstur undafarin tvö ár. Ekkert útlit er fyrir að menn lagi rekstur sjóðsins að veruleikanum á næstunni. Fátt bendir til að sparað verði í rekstri ríkisins svo nokkru nemi.
En þótt það ætti að segja sig sjálft að ríki verða vart skuldsett án ríkisafskipta virðast ýmsir telja að skuldir íslenska ríkisins séu á einhvern hátt of litlum ríkisafskiptum að kenna.