Föstudagur 17. september 2010

260. tbl. 14. árg.

Þ að er óhugnanlegt að lesa tillögur meirihluta þingmannanefndar um ákærur á hendur fjórum fyrrverandi ráðherrum. Ekki vegna þess að við lesturinn komi í ljós úthugsaðir glæpir og fólskuleg illvirki heldur af allt öðrum ástæðum. Það er hreinlega óhugnanlegt að svo hratt hafi Ísland sokkið í heim hreinræktaðs rugls, að nú sé svo komið að meirihluti þingnefndar vilji draga fólk fyrir landsdóm og ætli sér að bera þar á borð aðra eins moðsuðu og bjálfahátt. „Ákæruefnin“ eru að mati Vefþjóðviljans gersamlega fráleit og með ólíkindum að þau séu lögð til í fullri alvöru, og að heilu þingflokkarnir íhugi það beinlínis að styðja þær. Enda hafa fjölmiðlamenn flestir forðast eins og heitan eldinn að segja fólki hvað raunverulega stendur í plagginu.

En tillaga nefndarmeirihlutans, og sú frá minnihluta Samfylkingarinnar, kalla á Andríkispunkta.

•Það fyrsta sem sker í augu þegar drögin eru lesin, er að í upphafi ákærudraganna eru þau Geir H. Haarde og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir ekki aðeins kölluð fyrrverandi forsætisráðherra og utanríkisráðherra , heldur einnig fyrrverandi oddviti Sjálfstæðisflokks og Samfylkingarinnar í ríkisstjórn. Þarna sést að höfundar ákærunnar átta sig þó á pólitískum raunveruleika, sem var rannsóknarnefnd Alþingis til dæmis hulinn með öllu, eins og margt annað. Hins vegar er þessi pólitíski raunveruleiki jafnframt lögfræðilegur óraunveruleiki, sem verulega kemur á óvart að sé notaður í ákæru til að reyna að auka ábyrgð hinna ákærðu.

•En fyrst þingmannanefndin tekur þá afstöðu að ætla þessum einstaklingum aukna ábyrgð sem oddvita flokks síns við ríkisstjórnarborðið, þá vekur auðvitað sérstaka athygli að nefndin horfir fram hjá þeirri staðreynd að einn þáverandi og núverandi ráðherra, Össur Skarphéðinsson, var staðgengill annars þessara flokksformanna í veikindaleyfi hans haustið 2008.

•Það ætti að blasa við flestum að ákæra á einstakling verður að vera mjög skýr. Það verður að vera ljóst hvað honum er gefið að sök, nákvæmlega, og hvar sú háttsemi hans er lýst refsiverð í lögum. Þegar nú virðist standa til að kalla út landsdóm, sem engu Alþingi hefur áður þótt réttlætanlegt, þá hlýtur þessi krafa að vera sérstaklega rík. Og þegar við bætist, að ákærurnar eru settar fram í framhaldi af atburðum sem lýst er sem sérstöku „hruni“, þá er enn alvarlegra fyrir fólk að vera borið þar sökum. Og hver eru þá hin nákvæmu og skýru ákæruatriði sem þingmenn vilja að ráðherrarnir fyrrverandi verði dæmdir fyrir? Haldi menn sér fast:

•Öllum ráðherrunum er gefið að sök: „að hafa látið undir höfuð leggjast að hafa frumkvæði að því, annaðhvort með eigin aðgerðum eða tillögum um þær til annarra ráðherra, að innan stjórnkerfisins væri unnin heildstæð og fagleg greining á fjárhagslegri áhættu sem ríkið stóð frammi fyrir vegna hættu á fjármálaáfalli.“
•Öllum ráðherrunum er gefið að sök: „að hafa ekki fullvissað sig um að unnið væri með virkum hætti að flutningi Icesave- reikninga Landsbankans í Bretlandi yfir í dótturfélag og síðan leitað leiða til að stuðla að framgangi þessa með virkri aðkomu ríkisvaldsins.“
•Öllum ráðherrunum er gefið að sök: „að hafa á framangreindu tímabili látið farast fyrir að framkvæma það sem fyrirskipað er í 17. gr. stjórnarskrár lýðveldisins um skyldu til að halda ráðherrafundi um mikilvæg stjórnarmálefni. Á þessu tímabili var lítið fjallað á ráðherrafundum um hinn yfirvofandi háska, ekki var fjallað formlega um hann á ráðherrafundum og ekkert skráð um þau efni á fundunum.“
•Öllum ráðherrunum er gefið að sök: „að hafa vanrækt að hafa frumkvæði að virkum aðgerðum af hálfu ríkisvaldsins til að draga úr stærð íslenska bankakerfisins með því til að mynda að stuðla að því að bankarnir minnkuðu efnahagsreikning sinn eða einhverjir þeirra flyttu höfuðstöðvar sínar úr landi.“

Þetta eru nú helstu atriðin og eiga að réttlæta landsdóm þar sem krafist er refsingar yfir þessu fólki. Ætli flest venjulegt fólk sé ekki þeirrar skoðunar, að ekki eigi að refsa manni fyrir verknað, nema hann hafi að minnsta kosti mátt gera sér einhverja grein fyrir að hann væri refsiverður, þegar hann framkvæmdi hann. Hvernig í ósköpunum er nú til dæmis hægt að halda því fram, að það, að hafa ekki „frumkvæði að því, annaðhvort með eigin aðgerðum eða tillögum um þær til annarra ráðherra, að innan stjórnkerfisins væri unnin heildstæð og fagleg greining á fjárhagslegri áhættu sem ríkið stóð frammi fyrir vegna hættu á fjármálaáfalli“, geti verið refsivert afbrot? Hvaða máli hefði slík „fagleg greining“ skipt, þótt hún hefði verið unnin í ofboði? Enginn minntist á slíka greiningu, fyrr en rannsóknarnefnd Alþingis datt í hug, átján mánuðum eftir bankaþrot, að það hefði nú kannski verið gagnlegt ef hún hefði verið til. Hvernig dettur mönnum í hug að ákæra fólk, ekki bara fyrir að láta ekki vinna slíka greiningu, heldur beinlínis fyrir að leggja ekki til við einhvern annan ráðherra að það yrði gert? Hvaða brjálæði er þetta?

Hvernig er hægt að ákæra menn fyrir að hafa ekki „frumkvæði að virkum aðgerðum“ til að draga úr stærð íslenska bankakerfisins? Hvaða virku aðgerðir hefðu það átt að vera? Hvaða heimildir höfðu ráðherrarnir til þess? Hvers vegna á að ákæra utanríkisráðherra fyrir að hafa ekki frumkvæði að slíku? Hvers vegna fjármálaráðherra? Hvers vegna forsætisráðherra? Af hverju þá ekki alveg eins aðra ráðherra? Hvaða heimildir höfðu þessir ráðherrar, að ekki sé spurt hvaða skyldu, til að beita „virkum aðgerðum“ til að „einhverjir“ viðskiptabankanna flyttu úr landi? Hafa íslenskir ráðherrar heimild til að beita sér með virkum hætti fyrir því að íslensk fyrirtæki flytji úr landi? Er hreinlega hægt ákæra þá fyrir að nýta sér ekki þá heimild, hvar sem hún er? Er hægt að ákæra utanríkisráðherra landsins fyrir slíkt? Hvers vegna? Af því að hún var formaður Samfylkingarinnar? Eru ríkari lagaskyldur á formönnum flokka en öðrum ráðherrum? Hvar má finna þær lagaskyldur? Hvar í ósköpunum eru heimildir fjármálaráðherra til þessara sömu „virku aðgerða“? Ef að utanríkisráðherrann hefði látið af formennsku í flokknum en til dæmis iðnaðarráðherrann tekið við, yrði þá iðnaðarráðherrann ákærður fyrir brot gegn ráðherraábyrgð, en ekki utanríkisráðherrann?

Hvaða heimild höfðu ráðherrar til að „fullvissa sig“ um að unnið væri „með virkum hætti“ að flutningi Icesave-reikninga Landsbankans yfir í dótturfélag og til að stuðla að slíku með „virkri aðkomu ríkisvaldsins“? Það er raunar mjög athyglisvert að í ákærudrögunum er ráðherrunum gefið að sök að hafa ekki „leitað leiða“ til að stuðla að slíku, sem bendir til þess að nú, tæpum tveimur árum eftir bankaþrot, hafi þær leiðir enn ekki fundist. Hvernig á að ákæra ráðherra fyrir þetta, aðra en fræðilega viðskiptaráðherra sem Fjármálaeftirlitið heyrði undir?

•Eitt sem ráðherrunum er gefið að sök, er að hafa ekki staðið fyrir því að vandamál bankanna yrðu rædd á fundi allra ráðherra. Hér er þessu furðulega ákæruefni beint að fleirum en forsætisráðherra, sem stýrir ríkisstjórnarfundum, og viðskiptaráðherra, sem fer með bankamál, og sýnir það að þingmannanefndin telur að allir ráðherrar sem hafi vitað af ástandi máli að einhverju leyti hafi haft skyldu til að sjá til þess að slíkur fundur yrði haldin. En hvers vegna er Jóhanna Sigurðardóttir þáverandi félagsmálaráðherra þá ekki ákærð fyrir slíkt hið sama, því vitað er að hún fundaði um þessi mál en hafðist ekkert að? Ætli það geti verið, að þingmannanefndin viti vel að ákærur á núverandi ráðherra myndu ríða ríkisstjórninni að fullu, en á stjórnarheimilinu þyki öllum sjálfsagt að vaða í þá sem hættir eru?

•Annars er merkilegt að þingnefndin vilji ákæra ráðherrana fyrrverandi fyrir þetta. Þeir hafa í höndunum upplýsingar um grafalvarlega stöðu bankakerfisins. Allir sjá að ef slíkar upplýsingar verða á almannavitorði, þá á bankakerfið enga von. Á þessum tíma trúði fólk endurskoðuðum reikningum bankanna og hélt því í vonina. Dettur einhverjum í hug, að á þessum tíma hafi verið brýnast að halda tólf manna ráðherrafund um málið? Að nauðsynlegt hafi verið að kalla á Þórunni Sveinbjarnardóttur, Guðlaug Þór, Kristján Möller og þau öllsömul, og ræða málin þar í trúnaði? Að það hafi hreinlega verið refsivert að halda ekki slíkan fund? Hverju hefði slíkur fundur breytt?

•Eitt er afar athyglisvert. Þingmannanefndin telur refsivert að leita ekki leiða til að tryggja að Icesave-reikningar Landsbankans rynnu í erlend dótturfélag. Það hlýtur að þýða að þingmannanefndin telur refsivert að gera ekki allt sem mögulegt væri til að koma í veg fyrir að skuldir vegna reikninganna lentu á íslenskum skattgreiðendum. Og var þetta þó á þeim tíma þegar Landsbankinn var í fullum rekstri og íslensk yfirvöld álitu ekki ríkisábyrgð á reikningunum. Ef að það er rétt hjá nefndinni, að við þær aðstæður hafi verið beinlínis refsivert að leita ekki allra leiða til að reikningarnir færðust yfir í dótturfélag, hvað má þá segja um þá háttsemi núverandi stjórnvalda að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að íslenska ríkið taki á sig ábyrgð á þessum sömu reikningum?

•Ætlar Steingrímur J. Sigfússon, sem hefur gert meira en nokkur annar til að tryggja að íslenska ríkið þurfi að greiða Icesave-skuldina, að greiða því atkvæði að aðrir menn verði ákærðir fyrir að hafa ekki, fyrir bankaþrot, „leitað leiða“ til að koma þessum sömu reikningum yfir í erlent dótturfélag? Þingmenn, sem hafa tvívegis samþykkt lagafrumvarp um að Íslendingar greiði þessar skuldir, ætla þeir að ákæra aðra fyrir að hafa ekki „leitað leiða“ fyrir tveimur árum?

•Ákæruatriðin á hendur fyrrverandi ráðherrunum fjórum eru fráleit. Fjarstæðust þó á hendur Ingibjörgu Sólrúnu og Árna Mathiesen, sem málaflokkarnir heyrðu ekki einu sinni undir. Enda telur þingmannanefndin sig þurfa að teygja sig sérstaklega langt í þeirra tilviki. Þegar nefndin upplýsir hvaða lagagreinar fólkið er talið hafa brotið, er í tilfelli Ingibjargar Sólrúnar og Árna nefnt að þau séu ákærð til þrautavara fyrir tilraun til að sýna stórfellda vanrækslu og hirðuleysi. Dettur einhverjum í hug að þau hafi ákveðið að gera „tilraun“ til slíks, og hún þá mistekist? Tilraun er ekki gerð óvart eða af athugunarleysi. Hún er gerð af vilja. Eru menn gersamlega búnir að missa vitið? Ætla þingmenn Samfylkingarinnar að ákæra Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur og Árna Mathiesen fyrir tilraun til hirðuleysis?

•Svona mætti lengi halda áfram. Það er mikið áhyggjuefni að þjóðfélagið sé nú þannig statt að ákærur eins og hér hafa verið raktar vofi yfir fólki. Niðurstöður þingnefndarinnar eru ekki eins og búast mætti við af þingnefnd vitiborinna manna heldur eins og ef gerð hefði verið út sveit til að safna saman upphrópunum æsingamanna dægurumræðunnar og svo hefði Franz Kafka verið settur í það að semja upp úr þeim ákæru.

•Vefþjóðviljinn hefur komið út í þrettán ár og margt séð, en ekki hvarflaði að blaðinu að það ætti eftir að halda uppi vörnum fyrir Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur vegna ákæru fyrir landsdómi, og að ákæran stafaði frá Samfylkingunni, og að helstu forystumenn Samfylkingarinnar væru bak við tjöldin potturinn og pannan í ákvörðunum um ákæruna. Þingsályktunartillögur þingmannanefndarinnar um ákærur yfir ráðherrunum standast ekki gagnrýni, ekki frekar en annað sem frá nefndinni kemur, hvað sem mönnum kann að finnast um frammistöðu einstakra ráðherra í þessum hópi. Alþingismenn verða að hafa manndóm til að hafna tillögunum og hugsa um annað en stundaröskur dægurumræðunnar.

•Framsóknarmenn eru auðvitað spenntir að fá þarna tækifæri til að greina sig frá „hrunflokkunum“, sem svo hafa verið uppnefndir, en forystumenn hans geta ekki gert sig að þeim lítilmennum að stökkva á þennan vagn í slíku skyni.

Lágmarkskrafa er, að þeir þingmenn sem ætla að kalla landsdóm út í fyrsta skipti í sögunni, sýni þann manndóm að leggja eigin störf undir. Verði ráðherrarnir sýknaðir fyrir landsdómi, segi þeir þingmenn af sér þingmennsku sem til þessa hafa stofnað.