Á rið 1994 lýsti Orange sýsla í Kaliforníu sig gjaldþrota. Íbúar höfðu þá hafnað því að skattar yrðu hækkaðir til að mæta fjármálaóreiðu þeirri sem stjórnendur sýslunnar höfðu komið henni í. Fróðleg væri að bera helstu kennitölur úr rekstri Orange sýslu það ár saman við skuldugustu sveitarfélögin á Íslandi árið 2010. Þar er raunar spurning hve mörg af sveitarfélögum landsins kæmu vel út úr þeim samanburði.
Íslenskir sveitarstjórnarmenn hafa almennt hagað sér mjög óskynsamlega undanfarna áratugi. Þeir hafa sleppt fram af sér beislinu. Skattheimta sveitarfélaga er ekki mjög sýnileg því hún er hluti af skattinum sem menn greiða af launum sínum. Sveitarfélögin notuðu tækifærið ár eftir ár þegar ríkið lækkaði sinn hlut í tekjuskattinum til að hækka útsvarið. Það þurfti að gera til að eiga fyrir útborgun í íþróttahallir, -velli og laugar, menningarhús, söfn, einsetinn skóla og leikskóla sem eru sífellt nær því að vera alfarið á kostað útsvarsgreiðenda.
Fyrir nokkrum árum þótt ekki tiltökumál að foreldrar greiddu um helming kostnaðar við leikskólapláss barna sinna. Nú greiða þeir sem greiða mest innan við 15%. Það má nefna sem dæmi að þeir foreldrar sem taldir eru geta greitt hæstu leikskólagjöldin í Reykjavík (eru hvorki ráðuneytisstjórar í námsleyfi né einstæðir forstjórar) greiða kr. 15.243 fyrir 5 ára barn í 8 stunda vistun. Eigi þeir annað barn í leikskóla fellur gjaldið á það eldra niður – eða færist öllu heldur á skattgreiðendur. Þá greiða foreldrarnir samtals kr. 20.655 fyrir tvö börn. Það eru innan við kr. 500 á dag. Svo eru menn hissa á biðröðunum í kerfinu eða því að laun starfsmanna leikskólanna séu ekki stórbrotin.